Skoðun

Samkeppni um úrgang

Bryndís Skúladóttir skrifar
Í grein í Fréttablaðinu 6. febrúar sl. skrifar starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Lúðvík Gústafsson, um nýlega genginn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem staðfest er lögbrot og viðeigandi sekt Sorpu gagnvart brotum á samkeppnislögum. Ekki verður betur séð af greininni og sérstaklega af fyrirsögn hennar en að hinum seku sé hrósað fyrir ólöglegt athæfi sitt og að hvatt sé til áframhaldandi lögbrota. Eða í besta falli að málið sé allt byggt á misskilningi sem þurfi að leiðrétta.

Augljós mismunun

Forsaga málsins er sú að í janúar sl. var kveðinn upp dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í ógildingarmáli sem Sorpa höfðaði gegn Samkeppniseftirlitinu og féll dómurinn Samkeppniseftirlitinu í hag. Málið er til komið vegna kvörtunar um mismunun gagnvart viðskiptavinum Sorpu, þar sem eigendur Sorpu fengu óháð umfangi viðskipta 14-18% afslátt á árunum 2009-2012 en aðrir viðskiptavinir gátu mest fengið 7% afslátt. Með því að veita eigendum sínum afslátt sem öðrum stóð ekki til boða hafi Sorpa misnotað aðstöðu sína. Samkeppniseftirlitið taldi þessa háttsemi stangast á við samkeppnislög og sektaði Sorpu í desember 2012 um 45 milljónir króna. Þeirri niðurstöðu var síðan vísað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurðinn og það hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nú einnig gert.

Togstreita á tímum breytinga

Mikil þróun hefur orðið á undanförnum áratug og svokölluð gámafyrirtæki, sem hófu starfsemi sína á flutningi úrgangs, stunda núorðið mun fjölbreyttari starfsemi sem felst í flókinni meðferð, flokkun og endurvinnslu úrgangs. Verkefnin í úrgangsmálum eru flóknari en fyrir nokkrum áratugum þegar allt fór í sömu holuna og sveitarfélögin sáu um verkið. Verðmæti hafa aukist í úrgangi og þá myndast ný tækifæri. Betri lausnir hafa leitt til þess að flokkun og endurvinnsla úrgangs hefur stóraukist. Á tímum þegar einkaaðilar færa sig inn á verksvið sem áður var í höndum opinberra aðila myndast togstreita. Hún endurspeglast í málaferlum líkt og þeim sem Lúðvík gerir að umtalsefni í grein sinni. Samtök iðnaðarins hafa hvatt stjórnvöld til þess að tryggja að löggjöf um úrgangsmál styðji við þróunina og skýri leikreglur á markaði þar sem bæði sveitarfélög og einkaaðilar leika stórt hlutverk. Í úrgangssöfnun og meðhöndlun úrgangs ríkir samkeppni og allir aðilar sem keppa á slíkum markaði verða að virða leikreglur sem þar gilda. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir samkeppnisyfirvöld og fyrir þá sem starfa á þessum markaði að Samtök sveitarfélaga líti á úrskurði, dóma og háar sektargreiðslur sem einhvern misskilning.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×