Innlent

Samherji segir launakostnað hæstan hér á landi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fiskvinnsla Þorsteinn Már segir launakostnað í fiskvinnslu Samherja á Dalvík vera 3.501 krónu á klukkustund.
Fiskvinnsla Þorsteinn Már segir launakostnað í fiskvinnslu Samherja á Dalvík vera 3.501 krónu á klukkustund. Vísir
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifar starfsfólki sínu á heimasíðu fyrirtækisins þar sem hann fer yfir launakjör fiskvinnslufólks sem þar vinnur samanborið við þá sem vinna sömu störf í Noregi og Þýskalandi.

Þorsteinn segir launakostnaðinn hæstan hér. Í samanburðinum er tekið tillit til þess að í norskri fiskvinnslu eru einungis greiddir 7,5 tímar fyrir dagvinnu sem krefst átta tíma viðveru en á Íslandi eru greiddir átta tímar fyrir sömu viðveru og sömu neysluhlé. Þetta er vegna þess að á Íslandi kveða kjarasamningar á um að greiða starfsfólki í fiskvinnslum öll neysluhlé en svo er ekki í Noregi og Þýskalandi.

Samkvæmt útreikningum Samherja nemur launakostnaður á klukkustund að meðaltali 3.501 krónu í fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Kostnaðurinn er næsthæstur í bolfiskvinnslu í Noregi þar sem hann nemur 3.433 krónum. Lægstur er hann í bolfiskvinnslu í Þýskalandi þar sem kostnaðurinn nemur 2.207 krónum.

Launatengd gjöld vega þungt í útreikningnum þar sem þau eru mishá milli landa.

Tryggingargjald í Noregi er lægra en á Íslandi sem og greiðslur atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Önnur launatengd gjöld eru svipuð milli landanna.

Þorsteinn segir að meðaltímalaun í frystihúsi á Íslandi nemi 1.560 krónum. Samtals nemi laun starfsmanna með orlofi að meðaltali 2.687 krónum á klukkustund. Launatengdur kostnaður atvinnurekenda nemur hins vegar 814 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×