Viðskipti innlent

Samherji framúrskarandi fyrirtæki ársins

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hagar, LS Retail og Kjarnepli hlutu sérstakar viðurkenningar.
Hagar, LS Retail og Kjarnepli hlutu sérstakar viðurkenningar. vísir/anton brink
Líkt og undanfarin fjögur ár er Samherji í efsta sæti í úttekt Creditinfo á framúrskarandi fyrirtækjum landsins. Þetta er fimmta árið í röð sem Samherji er í efsta sæti listans. Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í dag fyrir rekstrarárið 2014.

Að þessu sinni fengu 682 fyrirtæki viðurkenningu eða um tvö prósent fyrirtækja á landinu. Frá því Creditinfo hóf að taka saman lista yfir framúrskarandi fyrirtæki, en það var fyrst gert árið 2010, hefur þeim fjölgað gífurlega. Til að mynda eru þau tæplega fjórfalt fleiri nú en þá. Framúrskarandi fyrirtækin eiga það sameiginlegt að sýna stöðugleika í reksti og teljast líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta.

„Vaxandi fjöldi fyrirtækja á lista Creditinfo sýnir að við Íslendingar erum að rétta úr kútnum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við afhendinguna. Hann afhenti þremur fyrirtækjum, Kjarnepli, LS Retail og Högum, sérstök verðlaun. Hagar fengu viðurkenningu fyrir að vera sá nýliði sem náði hæst á listanum, LS Retail fyrir að vera hástökkvari ársins en fyrirtækið fór upp um 387 sæti. Kjarnepli fékk viðurkenningu fyrir að vera yngsta fyrirtækið á listanum en fyrirtækið var stofnað í september 2012.

„Það er mjög jákvætt fyrir atvinnulífið að fyrirtækjum fjölgi á listanum, í ár bætast við rúmlega 100 ný fyrirtæki. Þessi fyrirtæki byggja á sterkum stoðum og eru ekki líkleg til að skapa kostnað fyrir samfélagið. Það felast því mikil verðmæti í þessum fyrirtækjum fyrir samfélagið í heild sinni. Það er ánægjulegt að sjá að viðurkenningin sé búin að öðlast sess í atvinnulífinu,“sagði Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×