Enski boltinn

Samherjar Gylfa Þórs hrósa honum í hástert | Styttist í markametið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í ham að undanförnu fyrir Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í ham að undanförnu fyrir Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur verið sjóðheitur fyrir framan markið í ensku úrvalsdeildinni á nýju ári, en hann er búinn að skora sex mörk í síðustu tíu leikjum. Hann gæti bætt markamet Swansea í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Íslenski landsliðsmaðurinn er ein helsta ástæða þess að Swansea er að öllum líkindum að fara að bjarga sér frá falli, en sigurmark hans gegn Norwich um síðustu helgi færði liðið níu stigum frá fallsvæðinu.

Sjá einnig:Gylfi getur vel spilað með fjórum bestu liðum Englands

„Við erum ekki búnir að skora mikið sem lið en Gylfi er búinn að vera í svakalegu formi fyrir framan markið. Hann er sjóðheitur. Hann er ein helsta ástæðan fyrir góðum úrslitum okkar að undanförnu,“ segir Leon Britton, samherji Gylfa, í viðtali við Wales Online.

Gylfi Þór fagnar marki með stæl.vísir/getty
Getur bætt markametið

Mörk og stoðsendingar Gylfa á þessu tímabili hafa komið með beinum hætti að söfnun 17 stiga liðsins af 37 sem gerir 51 prósent. Hann er búinn að vera í stóru hlutverki hjá Swansea í vetur líkt og á síðustu leiktíð.

„Okkur hefur gengið illa að skora á þessari leiktíð en Gylfi hefur tekið af skarið á mikilvægum tímapunkti fyrir okkur. Hann hefur sýnt mikla ákefð og vilja til að búa eitthvað til fyrir okkur. Það sást gegn Norwich,“ segir Jack Cork, annar samherji Gylfa Þórs, í viðtali við South Wales Evening Post.

Gylfi hefur í heildina skorað 22 mörk fyrir Swansea síðan hann kom fyrst til liðsins á láni seinni hluta tímabils 2012.

Sjá einnig:Arnar: Gylfi Þór var lengi að ná sér eftir að koma Íslandi á EM

Það sannar gæði hans og mikilvægi fyrir velska liðið að Gylfi er næst markahæsti leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi með 22 mörk í 79 leikjum. Hann er kominn upp fyrir Spánverjann Michu sem skoraði 20 mörk í 52 leikjum frá 2012-2014.

Fílabeinsstendingurinn Wilfried Bony er enn markahæstur með 25 mörk í 54 leikjum, en framherjinn yfirgaf Svanina fyrir ári síðan þegar Manchester City keypti hann.

Gylfi Þór þarf þrjú mörk til að jafna við Bony á toppnum og fjögur til að verða markahæsti leikmaður liðsins í sögunni. Hann er lang markahæstur núverandi leikmanna Swansea, en næsti maður, Nathan Dyer, hefur skorað 17 mörk í 131 leik.


Tengdar fréttir

Gylfi getur vel spilað með fjórum bestu liðum Englands

Gylfi Þór Sigurðsson er í miklum ham í ensku úrvalsdeildinni á EM-árinu 2016. Hann skoraði sitt sjötta mark á árinu um helgina og hefur nú aldrei skorað meira í ensku úrvalsdeildinni. EM-árið er hans ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×