Innlent

Samgöngumiðstöð verður við Loftleiðahótelið

Hugmynd um nýja flugstöð í Reykjavík við hlið afgreiðslu Flugfélags Íslands var ýtt út af borðinu á fundi borgarstjóra og samgönguráðherra í morgun og ákveðið að stefna áfram að samgöngumiðstöð norðan við Loftleiðahótelið. Kristján L. Möller vonast til að framvæmdir hefjist eigi síðar en næsta vor.

Hugmynd um alhliða samgöngumiðstöð norðan Loftleiðahótels fyrir farþega bæði flugvéla og rútubíla var fyrst kynnt af flugmálayfirvöldum fyrir átta árum og fyrir fimm árum skrifuðu þáverandi ráðamenn, þau Sturla Böðvarsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, upp á fyrsta samkomulagið um verkefnið.

Byggingin hefur síðan snarminnkað frá þessari tillögu, úr níuþúsund fermetrum niður í þrjúþúsund, eftir því sem hugmyndin hefur þróast og undirskriftunum fjölgað, en Hanna Birna Kristjánsdóttir varð í vor þriðji borgarstjórinn til að skrifa upp á samkomulag við ráðherra um málið.

Ákvörðun borgaryfirvalda í sumar, að færa legu Hlíðarfótar, varð til þess að verkefnisstjórn taldi svo þrengt að samgöngumiðstöðinni að hún kynnti í haust svokallaðan vesturkost, að byggja fremur flugstöð við hlið afgreiðslu Flugfélags Íslands. Á fundi borgarstjóra og samgönguráðherra í morgun var þeirri hugmynd ýtt út af borðinu og ákveðið að standa við fyrra samkomulag um samgöngumiðstöð við Loftleiðahótelið.

Vinnan á næstunni mun miða að því að koma mannvirkinu betur fyrir á lóðinni og að hafa það sem ódýrast til að notendagjöld verði ekki of íþyngjandi. Í samtali við Stöð 2 nú síðdegis kvaðst Kristján L. Möller vonast til að framkvæmdir hæfust sem fyrst og eigið síðar en í vor.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×