Skoðun

Samfélagsleg ábyrgð og þjónandi forysta

Steingerður Kristjánsdóttir skrifar
Samfélagsleg ábyrgð, fyrirmyndir og þjónandi leiðtogar. Fer þetta þrennt saman?

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem á rætur sínar að rekja til Roberts Greenleaf sem setti fyrst fram hugmyndir sínar í kringum 1970. Í þjónandi forystu er fyrst og fremst horft til þess að þjóna fyrst og leiða síðan. Í þjónandi forystu er horft til margra þátta sem hafa verið greindir í skrifum Greenleafs og má þar nefna rannsóknir á þjónandi forystu sem prófessor Dirk van Dierendoncks við Erarsmus háskólann í Hollandi, hefur stýrt undanfarin ár.

Direndonck dregur fram þætti þjónandi forystu sem einkennast af því að bera  hag heildarinnar og þeirra sem tilheyra henni fyrir brjósti.  Afrakstur þjónandi forystu er einkum starfsandi sem byggir á valddreifingu, mannlegum samskiptum og árangri sem felst í uppbyggilegum samskiptum, starfsáængju, árangri í starfi og samfélagslegri ábyrgð.

Oft er ég spurð hvort þjónandi forysta sé ekki einhverjar kerlingabækur. Hvort þetta sé ekki bara eitthvað fyrir ístöðulausa stjórnendur og undirlægjur?

Svarið er nei. Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem mörg stórfyrirtæki hafa tileinkað sér með það að markmiði að hámarka afköst og arð með gæði og starfsánægju í fyrirrúmi. Má þar nefna bandarísk fyrirtæki á borð við South West Arlines, Starbucks, TDIintustries og Zappo svo eitthvað sé nefnt. Íslenskum fyrirtækjum sem tileinka sér þjónandi forystu fer einnig mjög fjölgandi.

Og hvað með það? Rannsóknarskýrsla Alþingis á bankahruninu leiddi meðal annars í ljós að nauðsynlegt er að taka upp nýja áhersluþætti í stjórnun þessa lands, fyrirtækja og stofnana. Eftir hrunið hefur komið í ljós að fólkið í landinu ber þverrandi traust til stjórnmálamanna, opinberra fyrirtækja og valdamikilla einstaklinga í þjóðfélaginu. Er kannski kominn tími til að staldra við og skoða hvernig hægt sé að snúa bökum saman og vörn í sókn. Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur á Akureyri lýsir þessu á eftirfarandi hátt í bloggfærslu sinni um helgina: „Auðvitað þarf hver maður og þar með hvert samfélag að gera fortíð sína upp til að geta haldið áfram og þess vegna er gott að t.d. bankahrunið hafi verið rannsakað og um það fjallað á opinberum vettvangi ekki síst til þess að læra af því og fá það staðfest að leikreglur aðdragandans séu ekki til eftirbreytni. Það sem er hins vegar áhyggjuefni er að gremjan sem skiljanlega ríkti í aðdraganda og eftirmála hrunsins virðist hafa fest rætur í þjóðarsálinni. Gleraugu gremjunnar eru að verða sameiginleg fjarsýnisgleraugu þjóðarinnar  sem við fáum stundum lánuð frá næsta manni til að rýna í aðstæður hverju sinni“

Gremjan sem Hildur talar um er vantraustið, vonbrigðin og vanmátturinn.

Og hvað gerum við þá? Í þjónandi forystu er gengið út frá nokkrum mikilvægum þáttum sem gætu nýst okkur sem þjóð og ráðamönnum í viðleitni til að finna betri samhljóm. Þessir þættir sem ég vil draga fram hér eru:

Efling, sem felur í sér ð hlusta á fólk af alúð.

Auðmýkt og hógværð sem felur meðal annars í sér að sjá eigin afrek í hæfileika í réttu ljósi og halda sig við ákveðnar siðferðisreglur.

Trúverðugleiki, sem felur í sér meðal annars að fyrirgefa þrátt fyrir misgerðir, skoðanamun og afstöðu annarra og geta lært af mistökum og gagnrýni.

Gagnkvæm viðurkenning, taka fólki á þeirra forsendum þar sem rúm er fyrir mistök og lærdómsferli. Vilji til að bera ábyrgð á stofnun og heild og ekki síst gagnvart samfélaginu. Vera öðrum fyrirmynd.

Samfélagsleg ábyrgð, ábyrgð gagnvart samfélaginu, tryggð og heiðarleiki.

Skýr stefna, geta framkvæmt það sem þarf óháð viðhorfum annarra, búa svo um að fólk hafi sveigjanleika til að blómstra og nýta hæfileika sína í leik og starfi.

Hvers vegna? 

Rannsóknir á þjónandi forystu undanfarin ár hafa sýnt svo ekki verður um villst að þjónandi forysta skilar aukinni starfsánægju, minni kulnun í starfi og framúrskarandi árangri. Þjónandi forysta eykur traust, skapar arð, eflir fólk til góðra verka og styrkir félagsauð. Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem á erindi við mig og þig og alla sem koma að því að skapa samfélag sem byggir á ábyrgð, samkennd, góðum fyrirmyndum fyrir komandi kynslóðir – og alla hina!  Gúgglaðu það!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×