Innlent

Sameinumst um að sýna lit

"Appelsínuguli liturinn er einkennislitur UN Women og á að minna okkur á réttindabaráttuna fyrir betra lífi kvenna," segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. Samtökin halda appelsínugulan dag 25. hvers mánaðar í fimm mánuði sem á að vekja almenning til vitundar um ofbeldi gegn konum í heiminum og þörfina á að berjast gegn því. "Verslanir við Laugaveginn ætla að gera miðbæinn svolítið appelsínugulan í dag með því að vera með þann lit í gluggunum. Svo hvetjum við líka alla til að klæðast appelsínugulu og sýna þannig stuðning sinn í verki á táknrænan hátt," segir Inga Dóra og biður fólk að senda sér myndir.

"Ofbeldi gegn konum er eitt helsta mannréttindabrot allra tíma," segir Inga Dóra. Hún tekur fram að sjónum sé sérstaklega beint að Afganistan nú, í tilefni þess að UN Women hefur nýverið fordæmt ofbeldi gegn stúlkum og konum þar. "Svo er íslenskur fókus á Afganistan líka. World Economic Forum hefur þrívegis valið Ísland þann stað sem best er að vera kona á en Afganistan þann versta, enda var komið árið 2009 þegar lög um afnám ofbeldis gegn konum voru samþykkt í Afganistan. Í þeim er kveðið á um að það sé refsivert að kaupa og selja konur, að selja konur í vændi, kveikja í þeim og brenna með sýru, að nauðga þeim og gifta stúlkur undir sextán ára aldri."

Tvær ungar stúlkur, Sahar Gul og Lal Bibi, hafa nýlega vakið viðbrögð í Afganistan og umræðu í alþjóðasamfélaginu er þær bentu á að þessi umræddu lög væru ekki virt, að sögn Ingu Dóru. "Önnur þessara stelpna var þrettán ára þegar hún var seld í hjónaband til ofbeldisfulls eiginmanns og ofbeldisfullrar tengdafjölskyldu. Hún var pyntuð og henni var nauðgað og haldið í gíslingu. Fjölskylda hennar fékk hana loks lausa og með hennar hjálp og mannréttindasamtaka er hún búin að leggja fram kæru á hendur tengdafjölskyldunni en ekki er búið að dæma í málinu.

Það er okkar allra að fylgjast með svona málum. Að stelpur undir átján ára aldri skuli stíga fram og bjóða kerfinu og kúguninni birginn vekur manni von og við verðum að sýna þeim samstöðu," segir hún og bendir á meiri upplýsingar á síðunni www.unwomen.is.

Inga Dóra segir myndir af Íslendingum, íklæddum rétta litnum, hafa farið héðan á allar landsskrifstofur UN Women, átján talsins, síðast þegar appelsínuguli dagurinn var. "Þær vöktu athygli," segir hún "sem sannar að við getum sameinast um að sýna lit."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×