Innlent

Sameiningar sveitarfélaga gætu greitt götu flugvalla- og framhaldsskólareksturs

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Með frekari sameiningum sveitarfélaga á næstu árum væri hægt að flytja fleiri verkefni til þeirra, meðal annars framhaldsskóla og rekstur flugvalla. Þetta segir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Skapa þurfi hvata fyrir sveitarfélög þannig að þau sjái ávinning af því að sameinast.

Frá árinu 1990 hefur sveitarfélögum fækkað um meira en helming vegna sameininga, nú síðast þann 1. janúar 2013, þegar Garðabær og Álftanes sameinuðust.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vill sjá frekari sameiningu sveitarfélaga á næstu árum og segist greina jákvæðari tón en oft áður meðal sveitarfélaga í þá átt.

„Ég held að það sé alla vega mikil ástæða fyrir okkur að skoða það hvernig við getum hjálpað þeim til þess að stíga þessi skref - alla vega að við séum ekki að þvælast fyrir þeim,“ segir Jón.

Hann segir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga geta verið þröskuld fyrir sveitarfélög að sameinast vegna tekjumissis. Því þurfi að skapa ákveðna hvata fyrir sveitarfélög þannig að þau sjái ávinning og hagræði af því að sameinast.

„Við erum að horfa til þess að reyna að losa um þetta og búa til hvata, jafnvel í gegnum jöfnunarsjóðinn, og ef til vill á öðrum sviðum til þess að ýta þá undir þessar viðræður ef vilji er til hjá mönnum.“

Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin tekið við nokkrum fjölda verkefna úr höndum ríkisins, nú síðast málefni fatlaðra árið 2011. Jón segir frekar sameiningu sveitarfélaga geta gert þau betur í stakk búinn til að taka við fleiri verkefnum á næstu árum.

Hvers konar verkefni væru það?

„Við getu nefnt verkefni eins og framhaldsskólana. Við erum búin að færa grunnskólann, nú er framhaldsskólinn orðinn styttri og það eru víðar um land komnir framhaldsskólar sem er mjög jákvætt,“ segir Jón.

Þá mætti einnig skoða verkefni á sviði velferðarmála og samgangna. „Við getum nefnt til dæmis rekstur flugvalla á landsbyggðinni. Er það jafnvel réttlætanlegt að það sé í höndum sveitarfélaga sem að eru með starfsemi og þekkingu til þess að taka jafnvel að sér þessi verkefni? Það má líta til margra hluta í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×