Innlent

Sameinast gegn ofbeldi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fjórir ráðherrar undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
Fjórir ráðherrar undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Mynd/Velferðarráðuneytið
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, Sigríður Á Anderssen, dómsmálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Yfirlýsingin byggir á samstarfsyfirlýsingu frá árinu 2014 sem fyrrum ráðherrar þessara málaflokka undirrituðu. Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að ráðherrarnir séu sammála um að halda verkefninu áfram með áherslu á samráð á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds, í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi segir í samstarfsyfirlýsingunni.

„Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Einnig telst hatursfull orðræða, sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til,” segir í yfirlýsingunni.

„Lögð verður áhersla á að bæta verklag og samvinnu allra sem geta tekið þátt í að draga úr ofbeldi meðal annars með því að efla forvarnir og fræðslu meðal barna, ungmenna og fólks sem vinnur með þeim, hjá réttarvörslukerfinu og meðal almennings; að efla hæfni lögreglu við uppljóstrun ofbeldisbrota og auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins til þess að taka á ofbeldismálum; og að efla velferðarþjónustuna til að veita þolendum uppbyggilegan stuðning og vernd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×