Innlent

Sambýlið við Austurbrún: Segir vilja íbúanna skipta borgarstjóra litlu

Bjarki Ármannsson skrifar
Bjarnþór Aðalsteinsson er íbúi við götuna og einn þeirra sem mótmælti byggingu á lóðinni.
Bjarnþór Aðalsteinsson er íbúi við götuna og einn þeirra sem mótmælti byggingu á lóðinni. Vísir/GVA/Valli
Talsvert hefur verið deilt um fyrirhugaða byggingu sambýlis á lóð við Austurbrún 6 í Reykjavík eftir að umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar samþykkti bygginguna í síðustu viku. Bjarnþór Aðalsteinsson, íbúi við götuna og einn þeirra sem mótmælti byggingu á lóðinni, tjáir sig um málið í aðsendum pistli sem birtist á Vísi í morgun og ber heitið „Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkur.“

Bjarnþór segir í pistlinum Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa fullyrt „á lævísan og óheiðarlegan hátt“ að þeir íbúar við götuna sem eru andvígir byggingu sambýlisins séu „á móti fötluðu fólki.“ Þar vísar hann til ummæla Dags í Fréttablaðinu fyrir helgi er hann sagði það „sorglegt“ að talað væri um að fasteignaverð á svæðinu gæti lækkað við byggingu sambýlis fyrir fjölfatlaða einstaklinga.

„Þetta svíður mig sérstaklega vegna þess að ég hef talið okkur skoðanabræður í pólitík og talið þig heiðarlegan stjórnmálamann,“ skrifar Bjarnþór í pistli sínum. „Þú veist vel um hvað mótmæli okkar snúast sem eru algjörlega óháð því til hvaða nota húsbyggingin á að vera. Hins vegar hefur á undanförnum mánuðum, síðan þú tókst við borgarstjóratitlinum, orðið ljóst að vilji íbúanna er lítils metinn og skiptir þig litlu.“

Með pistlinum lætur Bjarnþór svo fylgja mótmælabréf sem íbúar Austurbrúnar 8 til 14 sendu skipulagsfulltrúa vegna byggingarinnar. Eru í því meðal annars gerðar athugasemdir við það að svæðið sem sambýlið á að rísa á er sagt fullbyggt og fastmótað í aðalskipulagi Reykjavíkur og við það að bílastæðavandi gæti skapast með nýju byggingunni.

Sambýlið á að hýsa sex fjölfatlaða einstaklinga. Gert er ráð fyrir að húsið verði á einni hæð og nái hæst upp í fimm og hálfan metra.


Tengdar fréttir

Nágrannar hóta málsókn vegna sambýlis í Laugarásnum

Skipulagsráð samþykkti í gær stækkun á lóð Austurbrúnar 6 í Laugárásnum svo Félagsþjónusta Reykjavíkur geti byggt þar sambýli sem hýsa á fjölfatlað fólk með umönnunarþörf. Ekki var tekið tillit til harðra mótmæla nærri fimmtíu nágranna.

Sorglegt segir borgarstjóri um viðhorf nágranna til sambýlis í Austurbrún

Borgarstjórinn í Reykjavík segir sorglegt ef íbúar í Vesturbrún og Austurbrún telji að verðmæti húsa þeirra lækki ef byggt verður hús fyrir fjölfatlaða á svæðinu. Einn íbúinn, Jóhann G. Jóhannsson, segir hins vegar að það sé bygging á þessum stað og skerðin á grænum svæðum sem mótmælt sé enn ekki starfsemin í húsinu.

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkur

Á lægvísan og óheiðarlegan hátt fullyrðir þú að við sem mótmælt höfum fyrirhugaðri byggingu á lóð Austurbrúnar 6, séum á móti fötluðu fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×