Lífið

Sambúð rokkaranna gengur vel

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér eru meðlimir Vintage Caravan stoltir á svip við sendibíl sem þeir nota á ferðalögum.
Hér eru meðlimir Vintage Caravan stoltir á svip við sendibíl sem þeir nota á ferðalögum. Mynd/Einkasafn
„Við erum búnir að vera hér í bráðum þrjá mánuði og erum allavega ekki enn búnir að kyrkja hver annan,“ segir Óskar Logi Ágústsson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Vintage Caravan. Hann skipar sveitina ásamt Guðjóni Reynissyni trommuleikara og Alexander Erni Númasyni bassaleikara og saman fluttu þeir til Sønderborg í Danmörku til að elta rokkstjörnudrauminn.

Þeir búa saman í kjallaraíbúð. „Við æfum, sofum og borðum saman. Við erum með allt hér, meira að segja líkamsræktaraðstöðu og hænur úti í garði,“ útskýrir Óskar Logi. Hann segir sambúðina ganga mjög vel og þeir semji mjög mikið af efni. „Við erum komnir með efni í tvær plötur, við semjum eiginlega of mikið af efni,“ segir Óskar Logi og hlær.

Þeir félagar fjárfestu í sendibíl sem hefur reynst hentugur. „Við höfum tekið tónleikaferðalög hér og þar. Við sitjum þá þrír saman fram í með fullan bíl af græjum.“ Hann segir slík tónleikaferðalög ekki hafa verið möguleg nema þeir hefðu flutt út. „Þetta hefur bjargað okkur, það er svo dýrt að fljúga og borga yfirvigt og svona,“ bætir Óskar Logi við.

Sveitin hefur spilað mikið á árinu og gerir ráð fyrir að undir lok árs hafi hún leikið á um níutíu tónleikum á erlendri grundu og er bókuð út árið. „Við erum að fara spila á Wacken-tónlistarhátíðinni í ágúst og einnig að fara í langt tónleikaferðalag með sænsku hljómsveitinni Blues Pills sem er lofandi sveit,“ segir Óskar Logi.

Mikael Åkerfeldt, söngvari þungarokkshljómsveitarinnar Opeth, heillaðist af plötu sveitarinnar. „Já, hann fékk að heyra plötuna okkar frá skipuleggjanda tónlistarhátíðar sem við vorum að spila á. Núna eigum við meiri séns á að túra með þeim,“ segir Óskar Logi léttur í lundu. Sveitin er með samning við bókunarfyrirtækið Rock The Nation og er fyrirtækið iðið við að skipuleggja tónleika.

Þeir félagar koma fram á Eistnaflugi í kvöld en stoppa þó stutt hér á landi. „Við komum bara heim í tvo eða þrjá daga og svo aftur út. Við reiknum samt með að taka upp næstu plötu á Íslandi eftir áramót.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×