Innlent

Sambandsleysið á Vestfjörðum hefði ekki átt að koma neinum á óvart

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Innanríkisráðherra gat ekki svarað því hvenær hringtengingu ljósleiðara yrði komin á Vestfjörðum. Myndin er frá Flateyri.
Innanríkisráðherra gat ekki svarað því hvenær hringtengingu ljósleiðara yrði komin á Vestfjörðum. Myndin er frá Flateyri. Vísir/Anton Brink
Sérstök umræða fór fram á Alþingi í dag um stöðu og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbyggingu háhraðatengingar í dreifbýli. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hóf umræðuna og var tilefnið ærið þar sem skemmst er að minnast þess þegar Vestfirðir misstu samband sitt við umheiminn í marga klukkutíma í lok ágúst. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, var til andsvara.

Þingmenn úr öllum flokkum tóku til máls og voru allir sammála um að tryggja þyrfti fjarskiptasamband í dreifbýli þar sem það væri fyrst og fremst mikið öryggismál en einnig mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu.

Þingmönnum var skiljanlega tíðrætt um ástandið á Vestfjörðum en þar er ekki hringtenging ljósleiðara. Lilja Rafney spurði ráðherra út í hvenær hringtengingu ljósleiðara yrði komið á en ráðherra gat ekki svarað því nákvæmlega. Hanna Birna sagðist hins vegar hafa falið Fjarskiptasjóði að styrkja lagningu ljósleiðara frá Súðavík að Brú í Hrútafirði í gegnum Hólmavík og þannig ætti að koma á hringtengingu á svæðinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir sagði ekki hægt að tala um fjarskipti og öryggi í sömu setningu á sínum heimalóðum en hún er fædd og uppalin við Ísafjarðardjúp
Nokkrir þingmenn höfðu orð á því að sambandsleysið sem kom upp á Vestfjörðum hefði ekki átt að koma neinum á óvart, hvorki stjórnmálamönnum né fjarskiptafyrirtækjum, þar sem lengi hefði verið vitað að úrbóta væri þörf í fjarskiptakerfinu. Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins sem er fædd og uppalin við Ísafjarðardjúp, sagði til dæmis að á sínum heimaslóðum væri aldrei talað um öryggi og fjarskipti í sömu setningunni.

Við lok umræðunnar sagðist Lilja Rafney gjarnan vilja heyra að verið væri að leggja meiri fjármuni í að leggja háhraðatengingu og ljósleiðara á Vestfjörðum. Hanna Birna svaraði því til að það væri í höndum Alþingis að meta hvort meiri fjármunum yrði varið í verkefnið; hér væri verið að glíma við hið eilífa vandamál þingsins: takmarkað fjármagn.


Tengdar fréttir

Sambandsleysi á Vestfjörðum

Fjarskiptaþjónusta á Vestfjörðum er að hluta úti eftir að bilun varð í stofnkerfi Mílu upp úr klukkan hálf tíu í morgun.

Krefjast þess að ljósleiðari verði hringtengdur

Bæjarráð Bolungarvíkur fundaði í kvöld vegna þeirra stöðu sem kom upp í dag á Vestfjörðum en fjarskiptaþjónustan á svæðinu var að hluta úti eftir að bilun varð í stofnkerfi Mílu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×