Innlent

Sama samkomulag ekki lagt fram aftur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá samstöðufundi framhaldsskólakennara í mars í fyrra. Kjarasamningur framhaldsskólakennara er nú laus á ný eftir að nýju vinnumati var hafnað.
Frá samstöðufundi framhaldsskólakennara í mars í fyrra. Kjarasamningur framhaldsskólakennara er nú laus á ný eftir að nýju vinnumati var hafnað. Fréttablaðið/GVA
Samninganefnd Félags framhaldsskólakennara kemur saman á miðvikudag til að ræða þá stöðu sem upp er komin eftir að vinnumat framhaldsskólakennara var fellt í atkvæðagreiðslu síðastliðinn föstudag.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, gerir ráð fyrir að í vikunni, eftir fund samninganefndarinnar, verði líka fundað með samninganefnd ríkisins.

Nýtt vinnumat mætti einna mestri andstöðu hjá kennurum iðngreina, sem töldu það ógagnsætt og fela í sér aukna vinnu. Um leið og vinnumatið var fellt féllu niður launahækkanir sem það átti að hafa í för með sér fyrir kennara, 9,5 prósent strax og tvö prósent til viðbótar um næstu áramót, alls 11,69 prósenta launahækkun.

„Þetta þýðir bara að kjarasamningurinn er laus og að nú þurfum við að endurmeta stöðuna,“ segir Guðríður. Félagið þurfi að greina hvað það hafi verið sem félagsmönnum hugnaðist ekki við nýja vinnumatið.

„Ýmsar ástæður geta verið að baki því að fólk sagði nei, og sjálfsagt mismunandi út frá einstaklingum hvað hverjum fannst.“ 

Hvort stefni í harða deilu við ríkið segist Guðríður ekki þora að spá um.

„Fyrir lá samkomulag um vinnumat sem félagsmenn felldu. Þeim bara hugnast þetta ekki. Þá leggjum við eðlilega ekki fyrir sama samkomulagið heldur þurfa að eiga sér stað einhverjar breytingar.“

Þá þurfi að velta fyrir sér hvort stéttin sé yfirleitt tilbúin að fara í breytingar og að hversu miklu marki þurfi að fara í breytingar til að laga kjarasamninga félagsins að nýjum lögum um lengingu skólaársins í 180 daga. Kröfugerð félagsins liggi ekki fyrir. 

„Við þurfum að setja okkur samningsmarkmið og til þess að gera það þurfum við náttúrlega að vera með góða yfirsýn yfir stöðuna eins og hún er núna og heyra í okkar félagsmönnum,“ segir Guðríður og bætir við að haldinn verði fulltrúafundur Félags framhaldsskólakennara 19. þessa mánaðar og þá verði tilefni til að fara yfir stöðuna. 

„En það mun ekkert draga til tíðinda í þessum mánuði. Við þurfum bara að skoða stöðuna, vanda okkur og taka yfirvegaðar ákvarðanir um næstu skref.“

Grunnskólakennarar samþykktu matið

Vinnumat grunnskólakennara var samþykkt síðastliðinn föstudag með 57,8 prósentum greiddra atkvæða. 1.701 sagði já, en nei sögðu 1.160 eða 39,4 prósent. Auðir seðlar voru 81, eða 2,8 prósent. „Vegna þeirra breytinga á vinnuumhverfi kennara, sem kjarasamningurinn felur í sér, hækka laun kennara um 9,5 prósent þann 1. maí næstkomandi og um 2,0 prósent þann 1. janúar 2016,“ segir á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að þeim hækkunum loknum hafa laun grunnskólakennara því hækkað um 11,69 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×