Innlent

Salmann kallaði Valdimar bölvaðan gyðing

Jakob Bjarnar skrifar
Frá mótmælunum fyrir framan Laugardalsvöll um helgina. Engir kærleikar eru millum Valdimars og Salmanns.
Frá mótmælunum fyrir framan Laugardalsvöll um helgina. Engir kærleikar eru millum Valdimars og Salmanns.
Valdimar H. Jóhannesson blaðamaður birti í gær dramatíska frásögn undir fyrirsögninni „Bullur og rasistar“ þar sem hann lýsir því þegar sló í brýnu milli vina Ísrael og félagsins Ísland-Palestína á landsleik í kvennaknattspyrnu um helgina.

Svo virðist sem kappið hafi ekki verið minna utan vallar en innan. Ísland-Palestína hafði boðað til mótmæla vegna leiksins, en í tilkynningu sem félagið sendi frá sér kom meðal annars fram að landsliðið sé fulltrúi Ísraelríkis, sem stundi grimmilegar árásir á óbreytta borgara í Palestínu, hernám og landrán á palestínsku landi. „Herskylda í Ísrael er þrjú ár fyrir karlmenn og tvö ár fyrir konur – og því er verið að bjóða hér velkomna tilvonandi og fyrrverandi hermenn í her sem stundar mannréttindabrot og hefur að mati mannréttindasamtaka stundað stríðsglæpi í nýafstaðinni innrás sinni á Gaza.“

Valdimar var hins vegar ekki mættur á leikinn til að mótmæla heldur í félagskap vina Ísrael. Hann lýsir því að slegið hafi í brýnu milli þessa tveggja hópa, en mótmælendur hrópuðu ókvæðisorðum til vina Ísrael: „Lægst lagðist ímaminn [Salmann Tamimi] þegar hann gerði hróp að mér og kallaði mig helvítis gyðing. Ekki svo að skilja að ég væri nokkuð nema stoltur af því að vera gyðingur ef það hefði orðið mitt hlutskipti. En getur rasisminn almennt orðið rosalegri en þegar nafn kynþáttar eða trúarhóps er notað sem skammaryrði?“ spyr Valdimar á bloggi sínu. Hann vonar að samherjar Salmanns séu ekki svo illa á sig komnir að hróp hans hefðu fyllt þá stolti. „Eða eru þeir kannski bara ósköp venjulegir og lágkúrulegir gyðingahatarar?“

Þá greinir Valdimar frá því að fyrrverandi borgarfulltrúinn Þorleifur Gunnlaugsson hafi sýnt mikið offors í að reka sig í burtu af svæði sem mótmælendur höfðu lagt undir sig, en þangað taldi Valdimar sig eiga erindi við lögregluþjóna sem þar voru staddir. „Við vinir Ísrael höfðu ákveðið að munnhöggvast alls ekki við hatursliðið. Ég vék því þegar af vettvangi og svaraði ekki persónulegum svívirðingum sem ímaminn jós yfir mig. Er virkilega svo komið að menn af tagi Þorleifs skuli telja einhver svæði „no go" svæði eins og múslímar eru búnir að koma sér upp um alla Evrópu. Er „fjölmenningin" hérna virkilega að komast á það stig. Það fer um mig hrollur að svona skuli vera komið fyrir íslensku samfélagi,“ skrifar Valdimar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×