Innlent

Salernin fjarlægð: Sveitarstjórinn segir að ekki sé verið að brjóta á gamla fólkinu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
visir/heiða
Salerni úr herbergjum heimilismanna á hjúkrunarheimilinu Hjallatún í Vík í Mýrdal hafa verið fjarlægð úr herbergjunum vegna þrengsla en hvert herbergi er ekki nema ellefu fermetrar. Sveitarstjórinn segir að með þessu sé ekki verið að brjóta á gamla fólkinu.

Hjallatún er barn síns tíma byggt sem dvalarheimili aldraðra en ekki sem hjúkrunarheimili. Á heimilinu eru 12 hjúkrunarpláss og 6 dvalarheimilispláss.

Mikil þrengsli eru á herbergjunum enda eru þau aðeins um 11 fermetrar að stærð. Til að rýma fyrir og útbúa betri vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk hafa salerni verið fjarlægð úr herbergjunum. Ásgeir Magnússon er sveitarstjóri í Vík og þekkir vel til málsins.

„Þegar fólk er orðið það veikt og getur hvort sem er ekki nýtt þessi litlu salerni þá tókum við á það ráð að fjarlægja þau úr herbergjunum þar sem þau höfðu engan tilgang,“ segir Ásgeir.

En hvar fer þá heimilisfólkið á salerni?

„Það er önnur sameiginleg aðstaða í húsinu til þess að þjónusta fólkið og það þarf hvort sem er aðstoð. Það er minna mál að sinna fólkinu þar heldur en við þessar litlu aðstæður.“

Ásgeir segir að nú hafi verið ákveðið að ráðast í frumhönnun á nýju dvalar- og hjúkrunarheimili í Vík en það verði þó líklega aldrei byggt fyrir en málaflokkurinn sé komin til sveitarfélaganna, þau eigi að sinna málefnum aldraðra, ekki ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×