Innlent

Saksóknari hafi sýnt glannaskap

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hæstiréttur Íslands segir mannréttindi mikilvægari en rannsóknarhagsmuni.
Hæstiréttur Íslands segir mannréttindi mikilvægari en rannsóknarhagsmuni. Fréttablaðið/GVA
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms, sem sagði héraðssaksóknara skylt að eyða gögnum sem hald var lagt á við húsleit á heimili og skrifstofu Steinbergs Finnbogasonar lögmanns, sem vann fyrir skjólstæðing í peningaþvættismáli.

Steinbergur segir, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, að héraðssaksóknari hafi í þessu máli sýnt glannaskap, sem ef til vill hefði ekki gerst ef nýtt frumvarp með hertum reglum um hlerun símtala væri orðið að lögum.

Embætti saksóknara hafi hins vegar snúist gegn frumvarpi innanríkisráðuneytisins um slíkt. Ofuráhersla saksóknaraembættanna á aukin afköst og hámörkun árangurs sé hugsanlega ein af „ástæðum þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur oftsinnis spurt áleitinna spurninga um málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum“.

Héraðssaksóknari sagði tæknilegar ástæður valda því að ekki væri hægt að eyða umræddum gögnum, því þá myndu um leið eyðast mikilvæg gögn í málinu.

„Burtséð frá því hvort þessi sé raunin eður ei, geta slík tæknileg vandamál ekki, andspænis brýnum mannréttindum, heimilað að gögn sem fyrir fram má næstum örugglega gefa sér að geti aldrei tengst því máli sem verið er að rannsaka, séu haldlögð,“ sagði í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×