Innlent

Sakfelldur fyrir að flengja barn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Drengurinn marðist á rassinum.
Drengurinn marðist á rassinum. Vísir/HAR
Tuttugu og átta ára gamall karlmaður var sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 10. júní síðastliðinn fyrir brot gegn barnaverndarlögum og líkamsárás með því að hafa flengt stjúpson sinn. Það gerði hann í því skyni að aga hann vegna óþekktar og voru afleiðingarnar þær að drengurinn marðist á rassinum. Atvikið átti sér stað í mars síðastliðnum. Maðurinn hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.

Í dóminum segir að ákærði hafi skýlaust viðurkennt sakargiftir hjá lögreglu og fyrir dómi og hafi ekki neinn sakaferil. Þá segir að það sé metið manninum til refsiþyngingar að verknaðurinn hafi beinst gegn ungu barni á heimili sínu. Fyrir dómi greindi maðurinn frá því að verknaðinn hefði hann framið vegna fávísi og að um hefði verið að ræða uppeldisaðferð sem notuð hefði verið sem neyðarúrræði í hans eigin uppeldi.

Fordæmi eru til fyrir því að einstaklingar séu sakfelldir fyrir að flengja börn sín en til að mynda var faðir fjögurra ára drengs sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness árið 2015 fyrir að flengja hann. Hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×