Erlent

Sakborningur skotinn í réttarsal

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Sakborningur var skotinn í réttarsal í Salt Lake City í Bandaríkjunum í gær. Siale Angilau var sakaður um rán og líkamsrárás og var skotinn af dómsverði eftir að hafa gert sig líklegan til að ráðast á vitni með penna.

Í tilkynningu frá alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, sýndi sakborningurinn ógnandi tilburði.

Siale lést á sjúkrahúsi, en frá þessu er sagt á vef BBC.

Hann stökk af stað og hljóp í átt að manneskju sem var að bera vitni. Siale virtist ætla að ráðast á vitnið með penna. Hann var einn af 17 meðlimum gengis sem voru fyrir rétti, en vitnið var að segja frá innvígslu í gengið.

Dómari málsins ómerkti réttarhöldin.

Málið var tekið fyrir í nýju dómshúsi í Salt Lake City sem var tekið í notkun fyrir viku síðan. Það var skipulagt með öryggi í huga. Á völdum stöðum hússins eru skotheldar rúður og vitni, sakborningar og kviðdómur koma ekki inn í salinn á sama stað.

Siale Angilau.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×