Innlent

Sakar Samband íslenskra sveitarfélaga um að hafa breytt málflutningi sínum fyrir dómi

sunna karen sigurþo´rsdóttir skrifar
„Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga verða að eiga það við sína samvisku að hafa breytt vitnisburði sínum frá því sem þeir hafa áður sagt. Í ljósi þess að hér virðist vera um risastóran misskilning að ræða hvað varðar skuldbindinguna þá má ætla að afar auðvelt verði að ganga frá kjarasamningi."
„Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga verða að eiga það við sína samvisku að hafa breytt vitnisburði sínum frá því sem þeir hafa áður sagt. Í ljósi þess að hér virðist vera um risastóran misskilning að ræða hvað varðar skuldbindinguna þá má ætla að afar auðvelt verði að ganga frá kjarasamningi."
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa breytt málflutningi sínum fyrir Félagsdómi í síðustu viku. Hann segir fyrirliggjandi gögn sýna fram á það og furðar sig á því að dómurinn hafi ekki litið á það sem misræmi í vitnisburði.

Þetta kemur fram í pistli sem Vilhjálmur ritaði á vefsíðu félagsins. Félagsdómur vísaði á föstudag frá máli verkalýðsfélagsins gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna SALEK-samkomulagsins svokallaða, en félagið taldi það meðal annars brot á stjórnarskrá. Málinu var vísað frá á grundvelli þess að ekki væri um lögvarða hagsmuni að ræða.

Sjá einnig: Tímasóun að fara með málið lengra

„Það ótrúlega í þessu máli er að þrátt fyrir að það liggi fyrir í fundargerð ríkissáttasemjara sem og í tölvupósti í skriflegu svarbréfi frá Sambandinu að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi með öllu að þeirra mati þá sögðu forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga eiðsvarnir frammi fyrir Félagsdómi að slíkt væri ekki rétt og SALEK samkomulagið væri ekki skuldbindandi heldur einungis stefnuviðmið sem Sambandið hafði sett sér,“ segir Vilhjálmur í pistli sínum.

Verða að eiga það við samviskuna

Vilhjálmur segir það margoft hafa komið fram í máli sambandsins að SALEK-samkomulagið sé skuldbindandi og forsenda þess að félagið geti fengið við það kjarasamning.

„Það vekur furðu formanns VLFA að dómurinn skuli ekki hafa átalið þetta misræmi í vitnisburði og fyrirliggjandi gögnum í dómsorði en samkvæmt upplýsingum formanns þá vegur vitnisburði fyrir dómi þyngra en fyrirliggjandi sönnunargögn. En það er ljóst að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga verða að eiga það við sína samvisku að hafa breytt vitnisburði sínum frá því sem þeir hafa áður sagt,“ segir Vilhjálmur.

Þá segir hann að ljóst sé að um risastóran misskilning sé að ræða hvað varði skuldbindinguna og því megi ætla að afar auðvelt verði að ganga frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar sem fylgiskjal og inngangur samningsins verði látin víkja „enda einungis um viðmið Sambandsins að ræða en ekki skuldbindingu.“


Tengdar fréttir

Deilan um Salek gæti endað fyrir héraðsdómi

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) skrifar ekki undir kjarasamning við sveitarfélögin þar sem svonefnt SALEK-samkomulag er með sem fylgiskjal, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×