Innlent

Sakar ráðherra um að vinna ekki heimavinnuna sína

Heimir Már Pétursson skrifar
Össur Skarphéðinsson vill að þegar verði hafnar viðræður við Breta um lagningu raforkustrengs til Bretlands. Iðnaðarráðherra segir að áður verði að skoða  málið betur hér heima.
Össur Skarphéðinsson vill að þegar verði hafnar viðræður við Breta um lagningu raforkustrengs til Bretlands. Iðnaðarráðherra segir að áður verði að skoða málið betur hér heima. vísir
Fyrrverandi utanríkisráðherra segir ekkert vera að gerast varðandi mögulega raforkusölu Íslendinga um sæstreng til Evrópu vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi ekki unnið heimavinnuna sína. Ráðherra segir þetta alrangt en kanna verði málið betur hér innanlands áður en formlegar viðræður um raforkusöluna verði teknar upp.

Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði iðnaðar- og viðskiptaráðherra út í það á Alþingi í morgun hvað væri að gerast varðandi mögulega lagningu sæstrengs til flutnings raforku til Evrópu og þá sérstaklega Bretlands. Samband evrópskra flutningsfyrirtækja á orku hafi nýlega birt skýrslu með samanburði á 100 verkefnum.

„Og niðurstaðan var sú að íslenska verkefnið bar af varðandi möguleika á arðsemi,“ sagði Össur.

Þá hafi iðnaðarráðherra kynnt niðurstöðu ráðgjafahóps á Alþingi í febrúar sem bar saman við skýrslu Hagfræðistofnunar um sama mál.

„Og laut að því að það væri afar mikilvægt fyrir Íslendinga að hefja könnunarviðræður við bresk stjórnvöld og fá úr því skorið hverjir möguleikar Íslands væru,“ sagði Össur.

Nauðsynlegt væri að komast að því hvort hægt væri að gera langtímasamninga við Breta samkvæmt sérstöku ívilnunarkerfi þeirra.

Össur spurði Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvenær hún hyggðist hefja viðræður um lagningu sæstrengs við Breta. Hún minnti á að atvinnuveganefnd Alþingis hefði skilað áliti sínu varðandi þessi mál.

„Í framhaldi af því átti ég viðræður við breska orkumálaráðherrann þar sem við fórum yfir þessi mál. Þar, eins og marg oft hefur koið fram, kom fram áhugi Breta á þessu viðfangsefni,“ sagði Ragnheiður Elín.

Hins vegar þyrfti að ræða þetta mál og skoða það frekar hér innanlands og breski ráðherrann hefði sýnt skilning á því.

„Hvað varðar spurningu þingmannsins um könnunarviðræður við Bretland, þá tel ég ekki tímabært á þessu stigi málsins, áður en við höfum sjálf aflað okkar þeirra upplýsinga sem ég nefndi, að fara í viðræður, hvorki við bresk stjórnvöld né aðra,“ sagð Ragnheiður Elín.

„Hæstvirtur ráðherra segir að það sé ekki tímabært að fara i þessar viðræður vegna þess að hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína. Þannig er það,“ sagði Össur eftir að hafa hlýtt á svör ráðherrans.

„Virðulegur forseti, ég verð að lýsa mig algerlega ósammála háttvirtum þingmanni. Það er verið að vinna þetta mál mjög vel. Ég leyfi mér að fullyrða það og það er rangt sem kemur fram hjá þingmanninum að við höfum ekki verið að vinna þetta og að ekkert hafi gerst í þessu máli. Það er rangt,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir. En í máli hennar kom einnig fram að hún væri að vinna ítarlegt skriflegt svar við fyrirspurn frá Össuri um þetta sama mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×