Innlent

Sakaði nágranna um póststuld og réðst á hann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn taldi að konan hefði stolið póstinum hans.
Maðurinn taldi að konan hefði stolið póstinum hans. vísir/getty
Karlmaður á sjötugsaldri var í Héraðsdómi Norðurlands eystra á dögunum dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir líkamsárás. Fullnusta refsingarinnar fellur niður haldi maðurinn skilorð í tvö ár.

Málsatvik eru þau að í október á síðasta ári kom nágrannakona mannsins til hans með bréf, stílað á hann, sem endað hafði í póstkassa hennar. Maðurinn, sem var undir áhrifum áfengis, brást hinn versti við og sakaði konuna um að stela póstinum hennar.

Samkvæmt skýrslu konunnar fyrir dómi svaraði hún þessari framkomu fullum hálsi. Maðurinn hefði þá snúið upp á vinstri hendi hennar og slegið hana í hægri öxl með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgur og mar. Í kjölfarið hafi hún leitað skjóls í íbúð sinni en maðurinn þá sparkað hurðinni að íbúðinni upp.

Ákærði neitaði sök. Sagði hann að hann hefði minnst þess að brotaþoli hafi komið að máli við sig þar sem hún hefði læst sig úti. Hann hefði því opnað íbúð hennar með því að sparka hurðina að henni upp. Samskipti þeirra hefðu ekki verið önnur. Þá þvertók hann fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis.

Bróðir brotaþola var staddur í íbúð hennar þegar árásin átti sér stað. Framburður hans og lögreglumanns, sem kom á vettvang, þótti renna stoðum undir framburð konunnar og rýra framburð ákæðra. Hann var því sakfelldur. 

Dóm héraðsdóms má lesa í heild sinni sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×