Erlent

Saka Votta Jehóva um að hylma yfir með kynferðisbrotamönnum

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Reglur Votta Jehóva í Bretlandi eru taldar hylma yfir með kynferðisbrotamönnum.
Reglur Votta Jehóva í Bretlandi eru taldar hylma yfir með kynferðisbrotamönnum. Mynd/Wiki Commons
Fjölmörg fórnarlömb hafa stigið fram í Bretlandi undanfarið vegna misnotkunar sem þau urðu fyrir innan trúarsamtaka Votta Jehóva. BBC greindi nýlega frá þessu.

Flest fórnarlömbin voru börn þegar misnotkunin átti sér stað og segja þau reglur trúarsamtakanna hylma yfir með þeim sem fremja brotin.

Louise Palmer er eitt fórnarlambanna sem fæddist inn í trúarsöfnuð Votta Jehóva ásamt bróður sínum. Henni var nauðgað af bróður sínum þegar hún var fjögurra ára gömul, en hann afplánar í dag tíu ára dóm fyrir brotin. Palmer segir í samtali við BBC að hún hafi leitað ráða hjá samtökunum áður en hún tilkynnti málið til lögreglu. Í kjölfarið hafi henni verið ráðlagt að leita alls ekki til lögreglunnar því það kæmi illa út fyrir söfnuð Votta Jehóva.

Tveggja vitna regla

Lögfræðingurinn Kathleen Hallisey, sem sérhæfir sig í málum tengdum barnaníð, hefur sett sig í samband við fjölmörg fórnarlömb innan söfnuðarins. Þau hafi flest fengið að kynnast svokallaðri „tveggja vitna reglu“ sem trúarsamtökin beita.  Hún felur það í sér til þess að brugðist verði við ásökunum um brot þurfi tvö vitni að stíga fram og staðfesta slíkt. Þessi regla hefur verið harðlega gagnrýnd en sjaldan eru tvö eða fleiri vitni í kynferðisbrotamálum.

Vottar Jehóva eru trúarhópur sem byggir á kristinni trú. Þeir neita þó þrenningarkenningunni um Guð föðurinn, soninn og hinn heilaga anda. Auk þess eru þeir duglegir að boða út boðskap sinn með því að ganga í hús og dreifa efni til fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×