Erlent

Saka Ísrael um að brjóta gegn alþjóðalögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Vísir/Getty
Sameinuðu þjóðirnar segja yfirvöld Ísrael hafa brotið gegn alþjóðalögum. Í stað þess að reyna að stöðva byggingu landtökubyggða á Vesturbakkanum og í Jerúsalem, eins og öryggisráðið fyrirskipaði, var byggingu landtökubyggða hraðað. Nickolay Mladenov, erindreki Sameinuðu þjóðanna segir fjölmargar tilkynningar um nýjar byggðir og lagabreytingar í Ísrael gefi í skyn að til standi að halda áfram uppbyggingu á landi sem er í eigu Palestínumanna.

Mladenov var á fundi öryggisráðsins í gær þar sem hann fór yfir hvernig ályktun ráðsins hefði verið fylgt eftir í Ísrael. Þar fordæmdi hann uppbyggingu landtökubyggða sem klárt brot gegn alþjóðalögum.

Ályktunin sem um ræðir var umdeild þar sem það kom verulega á óvart að hún skyldi ná í gegn. Egyptar lögðu hana fram og var fyrir fram búist við því að Bandaríkin myndu nýta neitunarvald sitt til að stöðva tillöguna. Það var hins vegar ekki gert og í stað þess sátu Bandaríkin hjá.

Samkvæmt AP eru engin ákvæði um refsingar í ályktuninni. Mladenov sagði byggingu landtökubyggða á hernumdum svæðum koma í veg fyrir mögulegan frið á svæðinu. Sendiherra Ísrael, Danny Danon, var ósammála.

Hann sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sagði ekki hægt að bera saman byggingu heimila og hryðjuverk. Hann sagði ofbeldi Palestínumanna standa í vegi fyrir friði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×