Erlent

Sagði Trump hafa mistekist að verja þjóð sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Ullah sagði lögregluþjónum að hann hefði hlotið innblástur frá Íslamska ríkinu en er ekki talinn hafa verið í samskiptum við vígamenn samtakanna.
Ullah sagði lögregluþjónum að hann hefði hlotið innblástur frá Íslamska ríkinu en er ekki talinn hafa verið í samskiptum við vígamenn samtakanna. Vísir/AFP
Akayed Ullah sem hefur verið ákærður fyrir að reyna að fremja hryðjuverkaárás setti færslu á Facebook skömmu áður en hann reyndi að sprengja sprengju í New York í gær. Þar virtist hann senda Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, viðvörun vegna árásarinnar. Ullah særðist sjálfur alvarlega í árásinni og þrír aðrir munu hafa hlotið minniháttar sár.

„Trump þér hefur mistekist að vernda þjóð þína,“ skrifaði Ullah á Facebook. Þetta kom fram í dómsal í dag þar sem áðurnefnd ákæra var lögð fram.



Ullah sagði lögregluþjónum að hann hefði hlotið innblástur frá Íslamska ríkinu en er ekki talinn hafa verið í samskiptum við vígamenn samtakanna. Hann mun einnig hafa sagt að tilefni árásarinnar væru aðgerðir Bandaríkjanna gegn ISIS.

Sjá einnig: Viðvaningur reyndi að fremja hryðjuverkaárás



Við leit lögregluþjóna á heimili Ullah fannst vegabréf sem hann hafði skrifað á orðin: „O Ameríka, deyðu í bræði.“ Þá kom einnig fram í dómsalnum í dag að Ullah hefði fyllt pípusprengjuna sem hann hafði búið til af skrúfum. Ríkisstjóri New York sagði fjölmiðlum í gær að sprengiefnið í sprengjunni hefði brunnið en hins vegar hefði engin sprenging orðið.

Í ákærunni segir að Ullah hefði ætlað sér að valda eins miklum skaða og hann gæti. Hann mun hafa byrjað að sýna ISIS hollustu árið 2014 og er sagður hafa horft á mikið af myndböndum þeirra á netinu. Meðal þeirra myndbanda var eitt sem fjallaði um að ef stuðningsmenn samtakanna hefðu ekki tök á því að ferðast til Mið-Austurlanda ættu þeir að fremja árásir í heimalöndum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×