Erlent

Sagði Pútín hafa boðið Pólverjum hálfa Úkraínu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Radek Sikorsk, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og núverandi þingforseti.
Radek Sikorsk, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og núverandi þingforseti. Vísir/AP
Radek Sikorski, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og núverandi þingforseti, var gagnrýndur í heimalandi sínu í gær fyrir ummæli í bandarísku blaðaviðtali, þar sem hann fullyrðir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi árið 2008 boðið Pólverjum helminginn af Úkraínu.

Rússar hafi þá ætlað sér hinn helminginn.

Hann fór undan í flæmingi þegar hann var spurður út í þetta í gær, sagðist hafa þetta eftir öðrum og sagði að þetta meinta boð Pútíns hefði verið tekið sem hálfgerður brandari á sínum tíma.

Talsmaður Pútíns sagði ekkert hæft í þessu.

Ewa Kopacz forsætisráðherra, sem er flokkssystir Sikorskis, gagnrýndi hann fyrir að koma sér undan því að svara spurningum um málið á blaðamannafundi í gær.

„Ég mun ekki líða hegðun af þessu tagi,“ sagði hún, og krafðist þess að Sikorski svaraði nú spurningum blaðamanna undanbragðalaust.

Stjórnarandstæðingar krefjast þess að hann segi af sér, ekkert pláss sé lengur fyrir ábyrgðarleysi af þessu tagi í pólskum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×