Enski boltinn

Sagði Mourinho við Rooney að hann mætti fara?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Vísir/Getty
Framtíð Wayne Rooney hjá Manchester United er í óvissu og enska blaðið Sun slær því upp í morgun að leikmaðurinn hafi fengið leyfi til að fara frá Manchester United.

Jose Mourinho hefur verið með Wayne Rooney á varamannabekknum að undanförnu en Rooney fékk ekki einu sinni að fara til London um helgina þar sem að Manchester United mætti Chelsea.

„Roo can go“ er fyrirsögnin hjá Sun. Eftir 12 ár, 532 leiki og 246 mörk séu það skilaboð portúgalski knattspyrnustjórans til Rooney.

Samkvæmt frétt Sun hefur Jose Mourinho gert Rooney grein fyrir því að hann þurfi að yfirgefa Old Trafford ætli hann sér að fá að spila reglulega í úrvalsdeildinni.

Það sem gerir þetta mál enn dramatískara er að að Wayne Rooney vantar nú aðeins þrjú mörk til að slá met Sir Bobby Charlton og verða markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi. Sir Bobby Charlton skoraði mörkin sín 249 í 758 leikjum.

Wayne Rooney var í byrjunarliðinu í fyrstu fimm umferðunum en hafði síðan komið inn á sem varamaður í undanförnum þremur deildarleikjum.

Rooney var í byrjunarliðinu og með fyrirliðabandið í 4-1 sigri á Fenerbahce í Evrópudeildinni og lagði þá upp eitt mark. Það er eini sigur United-liðsins í októbermánuði.

Wayne Rooney hefur aðeins skorað eitt mark á tímabilinu og það kom strax í fyrstu umferðinni á móti Bournemouth.

Stuðningsmenn Manchester United hafa örugglega blendnar tilfinningar til Rooney. Hann er einn besti leikmaðurinn í sögu félagsins en þrátt fyrir að vera bara 31 árs gamall þá er eins og það sé orðið lítið eftir á tanknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×