Innlent

Sagði Íslendingum frá áhrifum fjárframlaga

Samúel Karl Ólason skrifar
Börn að leik í Maiduguri.
Börn að leik í Maiduguri. Vísir/AFP
Upplýsingafulltrúi hjá UNICEF í Vestur-Afríku, Patrick Rose, var í beinni á Facebook í gær frá næringarmiðstöð í norðausturhluta Nígeríu og sýndi fólki á Íslandi hvernig framlögin í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir jól höfðu bein áhrif á líf vannærðra barna.

Patrick er staddur í flóttamannabúðum nærri Maiduguri í norðausturhluta Nígeríu þar sem ástandið á seinasta ári var einna verst. UNICEF sendi þá út neyðarákall, enda var líf ótal barna í bráðri hættu. Staðan er mun betri núna en hún var samkvæmt tilkynningu frá samtökunum.

„Með hjálp UNICEF hafa mörg börn náð bata,“ segir heilbrigðisstarfsmaðurinn Ayisha í vídeóinu, en færri alvarlega vannærð börn koma til hennar nú en áður.

Útsendingin fór fram úr næringarmiðstöð sem sett hefur verið upp, þar sem mæður koma með vannærð börn sín og fá meðferð.

„Þegar börnin eru alvarlega vannærð verður ónæmiskerfi þeirra svo veikt að þau smitast af alls kyns algengum sjúkdómum, sýkingum í öndunarfærum, niðurgangspestum og malaríu. Ónæmiskerfið þeirra er ekki nógu sterkt til að berjast gegn þessu. Það sem fer fram hér eru því aðgerðir sem bjarga lífi barna. Og þið Íslendingar hafið staðið með okkur til að hjálpa til við að gera þessa hluti mögulega,“ segir Patrick Rose í vídeóinu.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir vannærð börn í Nígeríu og nágrannaríkjunum fékk afar sterk viðbrögð og yfir 20 milljónir króna söfnuðust í nóvember og desember á seinasta ári.

„Ég er svo þakklátur fyrir alla á Íslandi sem styðja okkur. Ég veit að þið hafið virkilega látið ykkur varða hvað er að gerast hér í Nígeríu,“ segir Patrick.

„Ég vildi bara fara með ykkur inn á þessa heilsugæslustöð í dag og gefa ykkur smá tilfinningu fyrir því hvernig er hérna,“ segir hann.

Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×