Fótbolti

Sagan með Leicester í liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leicester er með fullt hús stiga og markatöluna 4-0 í Meistaradeildinni.
Leicester er með fullt hús stiga og markatöluna 4-0 í Meistaradeildinni. vísir/getty
Þótt Leicester City hafi nú þegar tapað jafn mörgum leikjum í ensku úrvalsdeildinni og allt síðasta tímabil gengur liðinu allt í haginn í Meistaradeild Evrópu.

Islam Slimani tryggði Leicester 1-0 sigur á Porto í fyrsta heimaleik félagsins í Meistaradeildinni í gær.

Englandsmeistararnir eru því með fullt hús stiga í G-riðli en þeir unnu 0-3 útisigur á Club Brugge í 1. umferð riðlakeppninnar.

Leicester er í afar góðri stöðu eftir fyrstu tvær umferðirnar í riðlakeppninni en liðið mætir FC Köbenhavn í næstu umferð. Með sigri þar fer Leicester langt með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Sagan er líka með Leicester í liði því engu ensku liði hefur mistekist að komast upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki sína þar.

Leicester tekur á móti Southampton á laugardaginn í næsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir landsleikjahléið sækir liðið svo Chelsea heim 15. október og þremur dögum síðar er komið að leiknum mikilvæga gegn FCK á King Power vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×