Skoðun

Saga hinnar hugrökku Jebu

Lóa Ingvarsdóttir skrifar
Þegar maður horfir í augu Jebu áttar maður sig ekki á hvað hún er búin að ganga í gegnum, en úr augum hennar skín gleði, lífskraftur og vilji. Sennilega væri hún ekki komin á þennan stað ef ekki væri fyrir þennan ótrúlega eldkraft sem í henni býr.

Þessa sögu gætu margar ungar stúlkur í Bangladess og víðar sagt þér, en saga margra þeirra endar ekki vel. Saga Jebu gerir það hins vegar.

Hún var 13 ára þegar hún var gift í burtu frá fjölskyldu sinni. Hún hafði verið gift í viku þegar barsmíðarnar hófust. Hún hugsaði strax og man sterkt eftir tilfinningunni um að hún yrði að komast í burtu.

Hún talaði við móður sína og sagði henni frá barsmíðunum. Móðir hennar sagði, elsku barn, þú verður að harka af þér og láta þig hafa það að lifa við þessi litlu vandamál, framtíðin verður betri.

Það er erfitt að átta sig á því og ímynda sér hvernig móður getur í ósköpunum talið barni sínu sé best borgið á þessa leið. Við hvaða aðstæður og hversu mikla fátækt býr móðir sem talar svona við barnið sitt?

Mánuði eftir giftinguna varð hún ólétt og fæddi fyrri son sinn á sínu fjórtánda ári. Árin líða þar sem barsmíðar og nauðgun verður sorglegur hluti af daglegu lífi hennar.

Jeba fékk ekki að halda áfram að ganga í skóla eftir að hún var gift, enda átti hún að sinna heimilinu.

Þessi litla stúlka áttaði sig þó á mikilvægi menntunar og talaði við skólastjóra sem var góður vinur pabba hennar. Hann gaf henni leyfi til að koma og taka prófin tvisvar á ári ef hún myndi ná að læra heima í laumi.

Hún nær að klára prófin og fær útskriftarskírteini. Á þessum slóðum voru slík skírteini ekki að finna í neinum gagnagrunni.

Tengdafjölskyldan var farin að fylgjast náið með henni og fundu að lokum skírteinið, skólaskírteinið sem að hún ætlaði að nota til að komast á næsta skólastig. Skírteinið var brennt.

Læddist út um miðja nótt

Lengi skipulagði Jeba flótta sinn. Loks eina nótt árið 2011, eftir 19 ár af barsmíðum og nauðgunum, 49 saumspor og mörg brunasár, hljópst hún á brott. Þarna átti hún einn 18 ára strák og annan fimm ára. Sá eldri kæmi ekki með, hann var of hliðhollur föður sínum en hún var ekki viss hvort yngri sonur hennar ætti betri lífslíkur með henni eða hjá föðurfjölskyldu sinni. Hvað hefði hún honum að bjóða, á flótta?

Hún ákveður, með trega, að skilja hann eftir og veðjar á að hún komist frekar ein lífs af.

Hún var búin að safna sér fyrir lestarfari til Dakka, höfuðborgar Bangladess.

Um miðja nótt þegar allir sofa, læðist hún út, tekur litlar eigur sínar og vefur þeim í sjalið sitt og læðist út. Hún hleypur af öllum lífsins sálarkröftum.

Þá heyrir hún lágt kall og óttast að einhver sé á eftir henni. Lítur við og sér þá hvar fimm ára sonur hennar hleypur á eftir henni og kallar ”mamma, mamma, ekki fara án mín”.

Hún faðmar hann þétt að sér, lítur til baka og sér engan annan á eftir þeim.

Hún þurrkar tárin hans og þurrkar tárin sín, grípur svo í hendina á honum og áfram hlaupa þau saman.

Í Dakka leitar hún uppi höfuðstöðvar mannúðarsamtaka sem hún þekkti til. Þessi samtök gátu ekki aðstoðað hana því þau óttuðust áhrif og völd tengdaföður hennar innan öfgasamtaka þar í landi.

Hún kemst að lokum til sterkra mannúðarsamtaka, Nigera Korji.

Þar er þeim veitt húsaskjól og henni boðin vinna. Þegar ég hitti Jebu er hún að vinna hjá Nigera Korji og les allar þær bækur sem hún kemst í tæri við. Hún les og fræðir sig um lög og réttindi.

Í dag berst Jeba fyrir jafnrétti og mannréttindum fyrir alla. Við skulum gera það líka.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. maí 2016.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×