Skoðun

Saga af ungum manni, árið 2016

Hilmar Hansson skrifar
1. ágúst: Ungur maður fór í göngutúr með 2 vinum sínum. Um miðnætti ganga þeir eftir bílaplani KFC í Hafnarfirði. Á lóðamörkum KFC og Bílanausts er stoðveggur tæpir 60 cm á hæð og grasblettur milli hans og bílaplans KFC. Ungi maðurinn stígur á grasið, misstígur sig þar og hrasar niður á bílaplan Bílanausts. Hann reynir að stíga í fótinn í fallinu en sennilega hefur hann lent á gangstéttarhellu sem lá laus á bílaplaninu. Lendingin var mjög slæm og hann gat ekki stigið í fótinn vegna sársauka í hné. Hann er fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þar er tekin röntgenmynd og hann settur í einhverskonar gifsspelku. Til að byrja með er honum sagt að hann megi ekkert borða, því hann sé kannski á leiðinni í aðgerð. Ekki varð þó af henni. Síðan dvelur hann þar, liggjandi í rúmi, á gangi, alla nóttina og fram að hádegi næsta dag. Vistin var frekar slæm, því hann gat ekkert sofið fyrir pípi í hurðinni sem var þar rétt hjá.

 

2. ágúst: Um hádegi eru honum seldar hækjur á 3000 krónur og sagt að koma sér sjálfum í Orkuhúsið á Suðurlandsbraut í segulómun. (samskonar tæki er á Landspítalanum, en það var fullbókað). Einnig var honum bent á að koma við í apóteki og kaupa verkjalyf samkvæmt lyfseðli. Ungi maðurinn var svo heppinn að eiga föður á lífi, sem gat keyrt hann í Orkuhúsið. Að lokinni rannsókn þar er honum sagt að niðurstaðan verði send til læknisins á Landspítalanum, sem pantaði rannsóknina. Honum er síðan sagt að fara heim til sín og bíða eftir símtali frá sama lækni.

 

3. ágúst: Í hádeginu fær hann símtalið og honum sagt að hann eigi pantaðan tíma hjá öðrum lækni í Orkuhúsinu klukkan 14:10, mánudaginn 8. ágúst.

 

8. ágúst: Eftir að hafa legið heima hjá sér í viku, með hálflamaðan fótinn, bryðjandi morfínskylt verkjalyf, er hann mættur tímanlega í Orkuhúsið. Honum er greint frá niðurstöðu rannsóknarinnar. Áverkarnir eru óvenju miklir og nánast næsti bær við að missa fótinn. Síðan er honum sagt að fara út í bæ og kaupa sér betri spelku. Vegna vaxandi verks í kálfa er honum einnig sagt að fara í ómskoðun til að athuga hvort það sé blóðtappi og eftir þá skoðun verði haft samband við hann.

 

9. ágúst: Ungi maðurinn er mættur klukkan 09:00 í Stoð í Hafnarfirði til að kaupa betri spelku. Gamla gifsspelkan er tekin af honum á staðnum og sú nýja sett á. Eftir þessi kaup liggur leiðin aftur í Orkuhúsið í ómskoðun með kálfann.

Síðan aftur heim að bíða. Læknirinn í Orkuhúsinu hringir síðan í hann upp úr hádeginu og tilkynnir honum að hann þurfi að fara í stóra aðgerð á Landspítalanum og að hann eigi að bíða eftir símtali þaðan og að þar muni annar sérfræðingur taka við honum. Skömmu síðar er hringt frá Landspítalanum og honum tjáð að hann fari í aðgerð mánudaginn 15 ágúst, en fyrst eigi hann að mæta á fund, fimmtudaginn 11.ágúst.

 

11. ágúst: Ungi maðurinn er mættur klukkan 09:00 á Landspítalann í Fossvogi, fyrst er tekin blóðprufa og síðan tekur við klukkutíma bið eftir fyrsta viðtalinu. Viðtölin urðu 3, fyrst við aðstoðarlækni á bæklunardeild, síðan við svæfingalækni og að lokum við hjúkrunarfræðing. Þessi viðtöl skiluðu litlu, mikið um endurtekningar og fólkið virtist ekki gera sér grein fyrir alvarlegu ástandi unga mansins.

Aðstoðarlæknirinn, sem var ungur og nýútskrifaður, virðist hafa áttað sig á slælegri frammistöðu sinni, því hann hringdi síðar sama dag til að útskýra hvað stæði til að gera í aðgerðinni.

 

15. águst: Ungi maðurinn mætir aftur á Landspítalann, í þetta sinn klukkan 08:30. Honum eru strax afhentur hvítur fatnaður, sem hann klæðir sig í. Síðan tekur við bið til klukkan 11:30!! Þá kemur læknirinn sem á að framkvæma aðgerðina og spjallar stuttlega við hann. Síðan meiri bið til klukkan 12:45, þá fer hann inn á skurðdeild. Aðgerðin tók ca klukkutíma. Hann vaknar síðdegis og dvelur um nóttina á 4 manna stofu og varð honum ekki svefnsamt vegna ýmiskonar búkhljóða og óhljóða, svo og vegna verkja, en honum fannst verkjalyfin vera sparlega skömmtuð.

 

16. ágúst: Stofugangur, sem venjulega er einhvern tímann milli 08:30 og 10:30, féll niður þennan morgun af ókunnum ástæðum. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina, kom þó og talaði við hann um tvöleytið. Hann tjáir honum að aðgerðin hafi gengið vel, þetta var sem sagt opin aðgerð, gerður var 20 cm skurður á utanvert hægra hné, síðan var rifinn vöðvi og liðbönd saumuð saman og eitthvað fleira. Ekki tókst þó að festa eina sin á réttum stað og ekki kom hann auga á annað krossbandið.

Vegna sköddunar á taug má hann einnig reikna með að vera með svokallaðan „drop-fót“ það sem eftir er, en það er skert hreyfigeta í ökla, en hann lafir niður. Hann verður því að ganga með drop-fót-spelku það sem eftir er, eða láta stífa ökklann.

Svo er hann sendur heim og sagt að koma í skoðun eftir 9 daga eða þann 25. ágúst. Á heimleiðinni er komið við í apóteki og meira keypt af verkjalyfjum og blóðþynningarlyf í sprautum, samkvæmt lyfseðli. Hjúkkurnar voru búnar að kenna honum að sprauta sig sjálfur í kviðinn. Lyfin voru ekki ókeypis og kostuðu sitt.

 

25. ágúst: Enn og aftur er ungi maðurinn mættur á Landspítalann í Fossvogi, nú er það G3-göngudeild. Stutt spjall við lækninn og skoðun. Einnig er áréttað hvaða æfingar hann eigi að gera til að hamla á móti rýrnun vöðvana. Síðan er saumurinn/heftin tekin úr. Síðan er hann settur í nýtt gifs, upp úr og niður úr, með ökklann í 90 gráðum. Svo er næsti tími fenginn þann 15.sept. Síðar kom á daginn að hver heimsókn á þessa deild er góð æfing í þolinmæði.

 

15. sept.: Ungi maðurinn mætir aftur á G3 göngudeild í Fossvogi kl 09:20. Mikið að gera og hann látinn bíða í 40 mín. Gifsið er tekið af og spelkan frá Stoð sett á. Síðan stutt spjall við lækninn og skoðun. Einnig fær hann þau fyrirmæli að panta tíma hjá sjúkraþjálfara. Næsti tími fenginn þann 10 nóv.

 

21. sept.: Fyrsti tíminn hjá sjúkraþjálfara. Fyrsti tíminn af mörgum, því það er löng endurhæfing framundan. Hún verður ekki ókeypis.  

 

Jæja, alltaf þurfti ungi maðurinn að taka upp veskið (nema á aðgerðadaginn) og er nú kostnaðurinn  kominn í 110,000 krónur. E.t.v. kemur bakreikningur frá sjúkratryggingum, upp á 60,000 krónur, ef þær neita að greiða fyrir spelkurnar. Samkvæmt mínum heimildum hefði hann aldrei þurft að taka upp veskið í Danmörku. Það má með réttu halda því fram að hinn almenni launþegi á Íslandi, hafi hvorki efni á því að veikjast eða slasast.

Ef þessi ungi maður hefði verið atvinnumaður í fótbolta, þá hefði honum ekki verið hent út af bráðamótökunni, heldur settur í aðgerð strax. Það skal hins vegar  ósagt látið hér hvort það hefði haft einhver áhrif á framvindu batans. En vissulega er maður nokkuð hugsi.             

Sumir segja að heilbrigðiskerfið hafi verið holað að innan og eftir að hafa fylgst með þessum unga manni sækja sér þjónustu þangað, hef ég verulegar áhyggjur af fagmennskunni, sem í boði er. Ég efast þó ekkert um dugnað og hæfileika fólksins sem þar starfar,  en vinnuálagið virðist of mikið og kerfið er fjársvelt.

Þetta er bara lítil saga úr heilbrigðiskerfinu. Margur hefur sjálfsagt lent í meiri hremmingum í þessu kerfi. En ég held það sé rétt að halda litlu sögunum til haga líka. Ef við segjum frá og varðveitum sögurnar, þá kemur kannski að því einn daginn að við rísum upp og krefjumst breytinga.

Mér finnst það frekar hjákátlegt að við séum sífellt að ljúga að okkur sjálfum með því að hrópa á torgum: „Ísland, best í heimi“ þegar við stöndumst ekki samanburð við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, lífskjör og lífsgæði almennings á Íslandi eru bara langt á eftir þeirra.

Ég á ekki von á því að þetta breytist á þessari öld, því við Íslendingar höfum lag á því að kjósa aftur og aftur svipaða „snillinga“ á þing og skiptir þá engu, hvort kosið er á vorin eða haustin. TIL HAMINGJU ÍSLAND.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×