Innlent

Safinn ekki seldur sem barnamatur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Eiturefnið patúlín sem myndast vegna myglusvepps í skemmdum ávöxtum hefur fundist í tveimur algengum tegundum af eplasafa. Annars vegar er um að ræða eplasafa frá vörumerkinu God Morgon og hins vegar frá X-tra. Aftonbladet greinir frá.

Tímaritið Råd og Rön rannsakaði 12 tegundir af eplasafa sem eru á almennum markaði í Svíþjóð.  Niðurstöður sýndu að magn patúlíns var yfir 10 míkrógrömmum á lítra í fyrrnefndum tveimur söfum. Slíkt magn patúlíns getur verið skaðlegt börnum. Patúlín er hins vegar ekki skaðlegt fullorðnum nema það fari yfir 50 míkrógrömm á lítra.

Í samtali við Aftonbladet segir Anna Edberg hjá tímaritinu Råd & Rön málið alvarlegt þar sem börn drekki mikið af ávaxtasafa. Foreldrar lýsa einnig yfir áhyggjum af málinu í samtali við blaðið.

Fulltrúar fyrirtækjanna sem framleiða safana taka undir í samtali við blaðið að málið sé alvarlegt. Það verði nú farið yfir það hvers vegna patúlín-magn var yfir mörkum þar sem allir safar séu ávallt gæðaprófaðir.

Vísir hafði samband við Kristjönu Pálsdóttur vöruhússtjóri hjá Samkaupum hf. sem flytur inn og selur X-tra-vörurnar frá Danmörku.

Samkvæmt upplýsingum sem hún fékk frá Danmörku er patúlín efni sem að finnst alltaf í eplum og eplasafa. Í vöru sem er á almennum markaði er miðað við þau mörk patúlíns sem eru ekki skaðleg fullorðnum, það er 50 míkrógrömm á hvern lítra. Safinn sé hvorki skilgreindur né seldur sem barnamatur og því sé ekki miðað við 10 míkrógramma mörkin. Þar af leiðandi hafi safinn ekki verið innkallaður í Skandinavíu. 

Að sögn söluaðilans í Danmörku innihéldu þær prufur sem voru yfir mörkum 12 míkrógrömm af patúlíni á hvern lítra en aðrar prufur mældust með minna magn af efninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×