Fótbolti

Sætir Blatter rannsókn hjá FBI?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Vísir/Getty
Fréttastofa ABC í Bandaríkjunum hefur heimildir fyrir því að Sepp Blatter, fráfarandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, sé í hópi þeirra sem er grunaður um spillingu í rannsókn bandarískra yfirvalda.

Saksóknarar í Bandaríkjunum létu handtaka sjö hátt setta aðila í FIFA í síðustu viku, aðeins tveimur dögum fyrir ársþing sambandsins þar sem Blatter var endurkjörinn forseti.

Hann tilkynnti svo í dag, fjórum dögum eftir endurkjörið, að hann muni stíga til hliðar um leið og hægt verður að kjósa nýjan forseta.

Yfirvöld í Sviss segja að Blatter liggi ekki undir grun vegna þeirra spillingarmála sem hafa verið til rannsóknar. ABC hefur hins vegar heimildir fyrir því að bandaríska alríkislögreglan, FBI, sé að rannsaka Blatter í tengslum við málið sem leiddi til aðgerðanna í síðustu viku.

Alls voru fjórtán aðilar sakaðir um að hafa átt beinan þátt að spillingu og mútumálum innan FIFA þar sem atkvæði gengu kaupum og sölum þegar kom að því að ákveða hvar stórmót í knattspyrnu skyldu haldin.

Blatter hefur ekki verið í nefndur opinberlega sem aðili sem liggur undir grun í rannsókn FBI og því hafa yfirvöld vestanhafs neitað að tjá sig um málið.

Einn heimildamaður ABC sagði tíminn væri að renna út fyrir Blatter. „Nú koma fram sífellt fleiri aðilar fram sem vilja bjarga eigin skinni. Það er bara tímaspursmál þar til einhver þeirra rýfur trúnað við Blatter og leysir frá skjóðunni.“


Tengdar fréttir

Blatter hættir sem forseti FIFA

Sepp Blatter sagði af sér sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, skyndilega í dag. Hann gegnir starfinu þar til nýr forseti verður kjörinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×