Lífið

Sætar sprengjukökur

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Kökurnar verða merktar nöfnum fórnarlamba með blóðrauðum matarlit. Solveig segist vonast til að samræður myndist milli sýningargesta, enda á verkið að vekja fólk til umhugsunar.
Kökurnar verða merktar nöfnum fórnarlamba með blóðrauðum matarlit. Solveig segist vonast til að samræður myndist milli sýningargesta, enda á verkið að vekja fólk til umhugsunar. vísir/ernir
Sætar sprengjur verða í boði á útskriftarsýningu meistaranema í myndlist og hönnun frá Listaháskóla Íslands. Í gjörningi myndlistarkonunna Solveigar Thoroddsen bakar hún kökur en með þeim vill hún minnast fórnarlamba sem látist hafa í stríðsátökum. 

„Maður fyllist ákveðinni vanmáttarkennd þegar maður sér daglegar fréttir af ofbeldi og stríðsátökum. Það er skelfilegt að geta ekkert gert og við brynjum okkur gegn þessu,“ segir Solveig og verkið er því hennar leið til að vekja athygli á áhrifum stríðs á gerendur, þolendur og samfélög í heild. Hún segist vonast til þess að gjörningurinn muni vekja fólk til umhugsunar.

„Það vilja allir frið í heiminum en þá er ekki hægt að láta svona hluti afskiptalausa. Þetta eru mín mótmæli, ég vil að fólk verði meðvitað og að þetta leiði til einhvers,“ segir Solveig.

Solveig nostrar við hverja köku sem hún skreytir með glassúr og ritar síðan nöfn fórnarlamba stríðsátaka á þær.

„Það er auðvitað ákveðin þversögn í því að standa glaðlynd í eldhúsinu að baka og skrifa síðan nöfn fórnarlamba með blóðrauðum matarlit á hverja köku,“ segir Solveig.

Útskriftarsýning meistaranema í myndlist og hönnun frá Listaháskóla Íslands er í Gerðarsafni 18.apríl til 10. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×