Skoðun

Sæstrengur?

Oddný G. Harðardóttir skrifar
ESB-ríkin hafa undirgengist skuldbindingar um hlutdeild umhverfisvænnar orku árið 2020. Mörg ríkjanna eiga langt í land með að ná þeim markmiðum og eru því áhugasöm um að finna leiðir til þess. Því velta ýmsir því fyrir sér með hvaða hætti íslensk orka fáist seld undir þeim ívilnunarkerfum sem ríkin nota en sá möguleiki að fá gott verð fyrir raforkuna er ein helsta röksemdin fyrir tengingu Íslands í gegnum sæstreng við evrópska orkukerfið.

Lagning sæstrengs frá Íslandi hefði áhrif á mörgum sviðum þjóðlífsins og því er lykilatriði að leita sáttar um svo stóra ákvörðun. Með það að leiðarljósi skipaði ég sem iðnaðarráðherra þverpólitískan ráðgjafarhóp á árinu 2012 með fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila. Má þar nefna fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, náttúruverndarsamtökum, aðilum vinnumarkaðarins og Neytendasamtökunum. Sá hópur skilaði í júní 2013 skýrslu og komst að sameiginlegri niðurstöðu án mótatkvæða og án sérálita sem er nokkuð sérstakt í svona stórum, þverpólitískum hópi.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um skýrslu ráðgjafarhópsins og er sammála um að vinna þurfi áfram að málinu í samræmi við tillögur hópsins. Nefndin bendir þeim til viðbótar m.a. á að huga þurfi að uppbyggingu innviða hér á landi er varða húshitunarkostnað og dreifingu raforku. Slóðin á skýrslu ráðgjafarhópsins er hér og á nefndarálit atvinnunefndar.

Ljóst er að mörg álitamál þarf að skýra áður en ákvörðun er tekin um lagningu strengsins og hagkvæmni slíkrar tengingar þarf að greina.

Þó að framleiðsla endurnýjanlegrar raforku og útflutningur hennar um sæstreng falli vel að áherslum græns hagkerfis mun lagning sæstrengs sennilega auka þrýsting á byggingu nýrra virkjana og háspennulína. Lög um rammaáætlun og lög um náttúruvernd eru því undirstaða allrar umræðu um auðlindina og nýtingu hennar.

Ég skora á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hún haldi áfram með málið eins og það byrjaði, í þverpólitískum farvegi með breiðri þátttöku hagsmunaaðila.




Skoðun

Sjá meira


×