Innlent

Sæluhús á Fagradal verði varðveitt

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hjörleifur Guttormsson leggur til að sæluhús verði ekki rifið heldur nýtt til fræðslu um samgöngur.
Hjörleifur Guttormsson leggur til að sæluhús verði ekki rifið heldur nýtt til fræðslu um samgöngur. Fréttablaðið/Stefán
„Þeir sem ég hef rætt við eru mér sammála um að mikil eftirsjá væri að húsinu, sem byggt var árið 1940,“ segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, í bréfi til bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs þar sem óskað er eftir að 75 ára gamalt sæluhús á Fagradal verði ekki rifið.

Björgunarsveitin Hérað sem er eigandi sæluhússins hefur þegar fengið leyfi sveitarfélagsins til að rífa húsið sem er úr sér gengið.

„Mér er vel kunnugt um að umgengni um Kofann hefur verið slæm og hann engan veginn gagnast sem sæluhús eða neyðarskýli. Ég skil vel viðhorf talsmanna björgunarsveita til núverandi ástands Kofans. En þetta mál hefur fleiri hliðar eins og ég heyri að er sjónarmið ýmissa,“ skrifar Hjörleifur og stingur upp á að ytra byrði sæluhússins verði endurgert og varðveitt til minningar. Ekkert þyrfti að vera inni í húsinu sem mætti vera lokað.

„Við kofann yrði komið fyrir myndarlegum og smekklegum fræðsluskiltum þar sem saga samgangna um Fagradal frá upphafi 20. aldar til dagsins í dag yrði rakin í máli og myndum,“ stingur Hjörleifur upp á.

„Ég hvet eindregið til að Kofinn verði ekki rifinn á næstunni á meðan menn fjalla nánar um möguleika á varðveislu hans sem hluta í heildarmynd þessa staðar við þjóðveginn um Fagradal.“ Bæjarráð tók bréf Hjörleifs fyrir og sagði örlög sæluhússins í höndum björgunarsveitarinnar og hvatti hann til að ræða málið við sveitina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×