Erlent

Sækja fast að vígasveitum IS í Írak

Atli Ísleifsson skrifar
Fleiri þúsund hafa látið lífið í átökunum, langflestir óbreyttir borgarar.
Fleiri þúsund hafa látið lífið í átökunum, langflestir óbreyttir borgarar. Vísir/AFP
Kúrískar hersveitir og herlið írakskra sjíamúslíma héldu sókn sinni áfram gegn vígasveitum IS í dag, degi eftir að þær náðu borginni Amerli í norðurhluta Íraks aftur á sitt vald.

Sömuleiðis hafa kúrdísku hersveitirnar og herlið sjíta náð tökum á borginni Suleiman Beg eftir að sveitir IS þurftu frá að hverfa, en borgin hefur verið eitt helsta vígi IS.

Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í dag að til standi að senda teymi til Íraks til að rannsaka þau stórkostlegu grimmdarverk sem hafa verið framin í landinu af hálfu liðsmanna IS.

Ofbeldisverk hafa stóraukist í Írak síðustu mánuði þar sem liðsmenn IS og aðrar uppreisnarsveitir súnníta hafa sótt fram og náð stórum landsvæðum í norður- og vesturhluta landsins á sitt vald.

Fleiri þúsund hafa látið lífið í átökunum, langflestir óbreyttir borgarar, og rúmlega milljón manns hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna ofsókna IS.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að íbúar í Amerli hafi verið hótað blóðbaði af liðsmönnum IS síðustu mánuði, en fréttaritari hafi í dag hitt fjölda himinlifandi íbúa sem höfðu aftur sameinast fjölskyldum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×