Erlent

Sádar ætla að verða stórveldi í grænum orkugjöfum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ali al-Naimi olíumálaráðherra Sádi-Arabíu
Ali al-Naimi olíumálaráðherra Sádi-Arabíu NORDICPHOTOS/AFP
Sádi-Arabía, stærsti olíuútflytjandi heims, stefnir á að verða stórveldi í grænum orkugjöfum áður en öldin er hálfnuð. Þetta sagði Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, á ráðstefnu um loftlagsbreytingar í París síðastliðinn fimmtudag.

Sádar hafa frá upphafi unnið gegn samþykkt loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og verið virkir í því að grafa undan samstöðu ríkja um samninginn, en nú hefur ríkið breytt um stefnu. „Þeir hafa breytt um stefnu og setja stóran hluta af sínu fjármagni í að fjárfesta í endurnýjanlegri orku. Þeir eru núna í forystu hvað þetta varðar og við fjárfestingar í rannsóknum,“ sagði Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður á loftlagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, á fundi Landsvirkjunar um framtíðaráhrif loftslagsbreytinga og aðgerðir gegn þeim síðastliðinn föstudag.

Sádi-Arabía hefur mikil áhrif á markaðinn í þessum efnum sem stærsti olíuútflytjandi heimsins og stærsti notandi jarðolíu í Mið-Austurlöndum.

Þá sagði ráðherrann á ráðstefnunni að einn daginn þyrfti Sádi-Arabía ekki að nota olíu, gas og kol sem orkugjafa. „Hvort það verður árið 2040 eða 2050 veit ég ekki,“ sagði Naimi og bætti því við að af þeim ástæðum yrði Sádi-Arabía einn daginn stórveldi í grænum orkugjöfum og gæti þannig farið að flytja út rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis á komandi árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×