Fótbolti

Sabella: Messi átti skilið að vinna Gullboltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Alejandro Sabella, landsliðsþjálfari Argentínu, telur að Lionel Messi hafi átt skilið að verða útnefndur besti leikmaður HM í Brasilíu.

Messi hlaut Gullboltann svokallaða eftir úrslitaleikinn gegn Þýskalandi í gær en hann hlýtur besti leikmaður HM hverju sinni.

Hann náði þó ekki sínu besta fram í úrslitaleiknum í gær og mörgum, til að mynda Gary Lineker, fannst hann ekki standa undir þeim miklu væntingum sem gerðar voru til hans fyrir mótið í Brasilíu.

„Messi átti lykilþátt í því að koma okkur á þann stað sem við enduðum á,“ sagði Sabella í gærkvöldi.

Messi var þó vorkunn að þurfa að taka á móti verðlaununum strax eftir að hafa tapað úrslitaleiknum á HM.

„Ég hef lítinn áhuga á þessu [verðlaununum] á þessu augnabliki,“ sagði Messi. „Við vildum vinna titilinn fyrir fólkið heima í Argentínu og okkur tókst það ekki. Við reyndum en okkur skorti lukkuna sem hafði verið á okkar bandi í síðustu leikjum.“

Messi skoraði fjögur mörk í keppninni og öll í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×