Fótbolti

Sá þriðji til að spila í fimm lokakeppnum HM

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Marquez í leiknum í gær
Marquez í leiknum í gær vísir/getty
Mexíkóski varnarmaðurinn Rafael Marquez skráði nafn sitt á spjöld HM-sögunnar þegar hann kom inn á sem varamaður í fræknum sigri Mexíkó á heimsmeisturum Þjóðverja í gær. Hinn 39 ára gamli Marquez kom inná á 74.mínútu.

Hann hefur nú spilað í fimm lokakeppnum HM og kemur sér þar með í hóp með landa sínum, Antonio Carbajal og þýsku goðsögninni Lothar Matthaus en þessir þrír eru þeir einu sem hafa náð að spila í fimm lokakeppnum.



„Ég var ekki að hugsa um þetta met þegar ég kom inn á. Leikurinn var í járnum og ég vildi bara skila mínu. Það var mikið undir,“ sagði gamla brýnið í lok leiks. Hann trúir því að Mexíkó geti náð langt í keppninni.

„Ég er í frábæru formi og líður vel fyrir framhaldið í keppninni. Það hafði enginn trú á að við gætum náð úrslitum gegn Þýskalandi nema við sjálfir. Við höfum öll tól til að ná langt í þessari keppni.“

Marquez spilaði í fyrsta skipti á HM í Suður-Kóreu og Japan árið 2002 og var svo með Mexíkó 2006, 2010, 2014 og í ár. Hann gerði garðinn frægan með Barcelona á árunum 2003-2010 en hefur auk þess leikið með Monaco, New York Red Bulls, Leon, Hellas Verona og uppeldisfélagi sínu; Atlas í Mexíkó þar sem hann leikur nú.

Gianluigi Buffon var í hópi Ítala í fimm lokakeppnum en spilaði ekkert á HM í Frakklandi 1998 þegar Gianluca Pagluica varði mark Ítala. Buffon og félagar misstu af farseðli á HM í Rússlandi með því að tapa fyrir Svíum í umspili.

 


Tengdar fréttir

Lozano hetjan í sigri Mexíkó

Mexíkó bar sigur úr býtum gegn Þýskalandi í fyrsta leik F-riðils á HM í Rússlandi en það var Hirving Lozano sem skoraði eina mark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×