Lífið

Sá ljósið eftir heimsókn frá Vottum Jehóva

Snærós Sindradóttir skrifar
Linda  er 25 ára gömul og gat sér gott orð með dansflokknum og dansskólanum Rebel fyrir nokkrum árum síðan.
Linda er 25 ára gömul og gat sér gott orð með dansflokknum og dansskólanum Rebel fyrir nokkrum árum síðan. Visir/Vilhelm
„Mér finnst kannski full háfleygt að segjast hafa frelsast, þetta var ekki eitt „aha“ augnablik. Það gerðist bara svolítið smátt og smátt að því meira sem ég lærði, því meira fór ég að sjá í gegnum alls konar hluti og skilja ástand heimsins betur. Í fyrsta skipti fannst mér ég hafa fengið svör og öll púslin passa saman,“ segir Linda Ósk Valdimarsdóttir sem á morgun flytur til Suður-Ameríku til að ganga hús úr húsi og bjóða fólki að læra um Biblíuna eins og Vottar Jehóva eru þekktir fyrir. Hún er 25 ára gömul og gat sér gott orð með dansflokknum og dansskólanum Rebel fyrir nokkrum árum. Hún er núna búsett í Kaupmannahöfn en þar kynntist hún Vottum Jehóva fyrst.

„Ég hef í raun alltaf haft gaman af því að læra og stúdera. Þegar ég var átján ára fór ég að skoða meira alls konar sjálfshjálparbækur um hvernig maður getur verið betri manneskja, en líka hvernig maður lætur starfsferilinn blómstra. Ég var leitandi að góðum lífsgildum og fannst mikið óréttlæti í heiminum og það opnuðust stórar spurningar um hvaðan við komum, hvert framtíðin stefnir og hvernig við getum notað ástríðu okkar til að stuðla að breytingum. Mér varð fljótt ljóst að maður breytir ekki heiminum sjálfur en maður getur tekið ábyrgð á sjálfum sér og lagt sitt af mörkum.“

Linda segist alltaf hafa haft sína barnatrú en verið dæmigerður íslenskur unglingur sem svaf af sér fermingarfræðsluna og fermdist fyrir pakkana. „Ég fann aldrei nein fullnægjandi svör. Svo bankaði upp á hjá mér fólk sem var að kenna um Biblíuna. Ég hleypti því inn en var samt alveg rosalega skeptísk og vildi alls ekki lesa neitt af þess eigin ritum. En Biblían sjálf, það er eitthvað sem þjóðin mín er byggð á og lögin í þjóðfélaginu eru byggð á. Þannig að ég hugsaði að það sakaði ekki að þekkja betur það sem er hluti af menningu okkar.“

Linda segist hafa verið skeptísk í aðra röndina en alltaf með annað augað opið. Hún hafi dælt út spurningum um allt sem henni datt í hug. „Konan sem kom lét Biblíuna alltaf svara spurningum mínum. Mér fannst ég alltaf fá fullnægjandi svör við þeim spurningum sem ég hafði og þau höfðu alltaf einhverjar staðreyndir sem studdu svörin. Smátt og smátt var ég farin að sjá heildarmyndina og sjá í gegnum samfélagslegar kenningar og hvernig þær stangast á við það sem Biblían er að kenna.“

Uppreisnargjörn á yngri árum

Linda segir Íslendinga almennt ekki hafa mikla þolinmæði fyrir fjölbreytni í trúarskoðunum eða því að fólk sé mjög trúað. „Við erum víkingar. Það getur verið erfitt að skera sig úr og vera öðruvísi en ég hef samt alltaf verið þannig að ég set spurningarmerki við hlutina í stað þess að fylgja straumnum. Ég var náttúrulega ekki með danshóp sem hét Rebel fyrir ekki neitt. Þegar ég var yngri kom uppreisnargirnin kannski fram á neikvæðan hátt en hún kom samt fram út frá réttlætiskennd. Ég er alveg Íslendingur í mér á þann hátt að vilja ekki vera steypt í fast form eða láta stjórna mér. Þess vegna spyrja sig margir hvernig ég þoli að vera Vottur Jehóva með öllum þeim svokölluðu ‚reglum‘ sem því fylgja. Þetta eru í raun gildi sem maður lærir og það er ekkert verið að taka frá manni frjálsan vilja. Biblían er skrifuð okkur til hagsbóta og ef við kjósum að fylgja henni þá er það okkur aðeins til góðs.“

Linda er sem sagt úr dæmigerðri íslenskri fjölskyldu, sem ekki rækti neina trú í ríkum mæli, og áður þekkti hún engan sem var Vottur Jehóva. „Mamma var náttúrulega alls ekki ánægð. Hún var ekki alveg að taka þetta í mál. En hennar hræðsla stafaði kannski af því að hún héldi að ég myndi aldrei tala við sig aftur. Ef maður veit ekki hvað barnið sitt er að fara út í, og hefur bara heyrt slæma hluti, þá er auðvitað skiljanlegt að maður verði hræddur. En það er töggur í mömmu og þó það væri áskorun þá útskýrði ég fyrir henni að ég væri í rauninni að grafa dýpra í það sem mér var kennt sem barn. Bæði vinir og fjölskylda hafa þó aðeins tekið eftir jákvæðum breytingum í fari mínu og samband mitt og mömmu hefur í rauninni aldrei verið jafn gott og núna.“





Linda segist alltaf hafa haft sína barnatrú en verið dæmigerður íslenskur unglingur sem svaf af sér fermingarfræðsluna og fermdist fyrir pakkana. Fréttablaðið/Vilhelm
„Kjaftasögur“ um útskúfun

Kjaftasögurnar, já. Í gegnum tíðina hafa margir fyrrverandi Vottar Jehóva stigið fram og lýst útskúfun úr Vottunum eftir að hafa stigið feilspor eða valið að draga sig út úr söfnuðinum.

Linda segir að það sé aldrei þannig að fólk sé rekið með skít og skömm úr söfnuðinum. Sjálf óttast hún ekki að verða fyrir neinni útskúfun. „Það er alls ekki þannig sem þetta fer fram. Það er eiginlega bara þvert á móti. Það eru allir ófullkomnir og það getur öllum orðið á. Þá er bara talað um hvað kom fyrir og fólki hjálpað að komast á rétta braut aftur. 

Þegar þú skírist sem Vottur Jehóva þá ertu að taka á þig ákveðna ábyrgð og segja að þér þyki Biblían innihalda bestu gildin og þú viljir gera þitt besta til að fylgja þeim. Ef þú síðan ákveður að fara á móti því þá getur þú ekki verið Vottur Jehóva lengur. Þetta er pínu eins og að sækja um vinnu í banka. Þá þarf að fylgja reglum og stefnu bankans. En ef allir starfsmenn myndu byrja að stela og ekkert yrði gert í því þá færu hlutirnir úr böndunum innan bankans. En því að bera nafn Guðs fylgir ábyrgð og það að vera Vottur Jehóva er eins og að vera í samstarfi við Guð. Til þess að hægt sé að hafa traust og einingu innan safnaðarins verða þegnar Guðs að vera tilbúnir til þess að fylgja þeim gildum og stefnu sem Guð setur.“

Aftur er Linda spurð um þær sögur að fólki sem gengur úr söfnuðinum sé ekki lengur heilsað á götum úti og það missi tengsl við þá vini sem það hefur eignast innan Votta Jehóva og jafnvel eigin fjölskyldu líka. „Þegar fólk ákveður að hætta þá gerist það oft að fólk fer upp á móti í staðinn. En Biblían kennir, og mælir með, að maður eigi að velja góða vini og umkringja sig þeim. Ef fólk hættir og fer að rakka niður söfnuðinn getur það dregið aðra niður með sér. Þínir nánustu móta þig. Ef maður er Vottur Jehóva og trúir því að Biblían sé með bestu lífsgildin en maður er stöðugt að umgangast fólk sem fer á móti því þá getur það dregið mann niður. En svo gerir fólk bara það sem því finnst best.“

Biblían látin þýða sig sjálf

Að sögn Lindu trúa Vottar Jehóva því sem stendur í Biblíunni, án utanaðkomandi túlkunar. Þannig er bókstafurinn látinn ráða en ekki túlkun presta og annarra manna trúarinnar. Trúin hafi þannig spunnist út frá því sem almenningur las úr Biblíunni en ekki yfirboðurum. „Við látum í raun Biblíuna þýða sig sjálfa. Þá kemur í ljós að Biblían er mjög einföld og skýr og margt af því sem trúarleiðtogar hafa verið að kenna í gegnum tíðina stangast á við það sem stendur í Biblíunni. Út frá því kemur þessi mikla réttlætiskennd, að ganga hús úr húsi og gefa fólki tækifæri til þess að læra hvað Biblían sé virkilega að kenna. Vottum Jehóva finnst fólk eiga rétt á að vita hvað Biblían segir í raun og veru og sjá í gegnum hvað er búið að snúa mikið upp á sannleikann varðandi hana.“

Hún bendir á að Biblían sé útbreiddasta bók í heiminum og sé uppi í hillu á fjölmörgum heimilum. „En margir þeir sem telja sig þekkja hana lesa aldrei í henni. Vottar Jehóva er eina trúfélagið sem ég hef kynnst sem virkilega notar Biblíuna og fylgir því sem þeir kenna úr Biblíunni.

Vottar Jehóva hafa einnig vakið athygli fyrir að halda hvorki upp á jól né afmæli, dagamun sem flestir Íslendingar gera sér og hlakka til ár hvert. „Persónulega var ég aldrei mikið jólabarn. Í mörgum fjölskyldum eru jólin hátíð sem er haldin til að fjölskyldan komi saman og gleðjist. Því miður er það sjaldnast sem það tekst og það var þannig í minni fjölskyldu. Ég fann aldrei beint þennan jólaanda. Þegar ég fór svo að læra um Biblíuna komst ég að því að uppruni jólanna stangast á við það sem hann er sagður vera. Hann er sagður vera afmæli Jesú Krists en þetta er hátíð sem kemur frá heiðinni trú. Frá þeim sem trúðu á sólina og tunglið en ekki Guð og Jesú. Í sögu kristinnar trúar var á einhverjum tímapunkti alls konar trú blandað saman til að friða samfélag þess tíma. Þegar maður lærir svona mikið um Biblíuna og fer að bera virðingu fyrir trúnni þá vill maður að hlutirnir séu réttir og mér finnst persónulega ekki rétt að halda hátíð sem er sögð vera samkvæm Biblíunni en stangast á við það sem Biblían er í rauninni að kenna.“

Hið sama gildi um afmæli. „Afmæli er ekki kristin hátíð, og frumkristnir menn héldu ekki þá hátíð. Í Biblíunni er aðeins tvisvar sinnum minnst á afmæli og í bæði skiptin voru kristnir menn teknir af lífi svo mér finnst það ekki viðeigandi að taka þátt í þeirri hátíð.“

Afstaða Votta Jehóva til samkynhneigðar

„Fólk heldur að Vottar Jehóva séu með þvílíka fordóma en það er alls ekki. Fólk má lifa sínu lífi eins og það vill. Það hefur enginn rétt til að setja sig í eitthvert dómarasæti og halda að maður sé betri en einhver annar af því að maður lifir lífinu svona eða hinsegin. Samkynhneigðir eru fólk eins og hvert annað og eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og kærleik eins og allir aðrir,“ segir Linda um afstöðu Votta Jehóva til samkynhneigðar.

Aftur á móti segir hún að samkynhneigð sé ekki samkvæm Biblíunni og því sé ekki hægt að vera meðlimur í Vottum Jehóva ef maður er kominn út úr skápnum. „Samkvæmt Biblíunni var mannkynið skapað sem karl og kona saman. Okkur var einnig ætlað að vera fullkomin og lifa í fallegri paradís á jörð, en við erum auðvitað, á svo margan hátt, komin langt frá þessum uppruna bæði sem mannkyn og jörð. Samkynhneigð er því partur af ófullkomleika, eins og allir eru ófullkomnir. Samkynhneigðir eru ekkert ófullkomnari en annað fólk og ég hef kynnst mörgu yndislegu samkynhneigðu fólki en þegar maður boðar orð Guðs og finnst það vera góður leiðarvísir þá þarf maður að vera tilbúinn til þess að fylgja stöðlum Guðs eftir bestu getu.

Mælt er með því að Vottar Jehóva eignist maka í sömu trú. „Biblían er skrifuð okkur til hagsbóta og þegar maður er með einhverjum sem er með sömu gildi og maður sjálfur þá gengur sambandið oft betur en annars. En þetta fer allt saman eftir frjálsum vilja þó Biblían mæli með því að vera með einhverjum af sömu trú. Það er auðveldara. Þegar fólk giftir sig og sækir blessun frá Guði þá er gott að hafa í huga að hann búinn að setja ákveðinn leiðarvísi um hvernig hjónabandið virkar best og í Biblíunni eru tól til þess að hjálpa fólki að stuðla að góðu hjónabandi. Það getur samt auðvitað margt komið upp en það er betra að fólk reyni að vinna í sambandinu í stað þess að hlaupa frá því eins og er mjög algengt í dag.“ Hún segist hafa hrifist af því hversu mörg sterk pör séu innan safnaðarins, samanborið við mörg brotin sambönd í kringum sig áður.

„Það að vera Vottur Jehóva finnst mér vera mikill heiður. Maður er að bera nafn þess æðsta í heiminum, Jehóva (Jehóva er nafn Guðs sem tekið hefur verið úr flestum Biblíuþýðingum síðustu aldar). Maður er í raun eins og fulltrúi Guðs, þess sem skapaði allt og er yfir öllu. Ég hélt að ég myndi aldrei verða Vottur Jehóva en þegar maður hefur öðlast þá þekkingu sem er að finna í Biblíunni þá langar mann að verða það á endanum. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun.“

Myndi hafna blóðgjöf

Linda Ósk segir að í Biblíunni sé mælt með því að halda sig frá blóði. Sjálf myndi hún hafna blóðgjöf ef til þess kæmi. „Þetta er mjög viðkvæmt umræðuefni. Oft er spurt hvort við viljum að börnin okkar deyi, en auðvitað vill það enginn og það vilja allir halda lífi og vilja það besta fyrir börnin sín. Okkur er kennt það að bera mikla virðingu fyrir lífi enda eru Vottar Jehóva um allan heim mjög strangir á því að fara ekki í stríð og eru heldur tilbúnir til þess sitja langa fangelsisvist ef til þess þarf í staðinn.

En það stendur í Biblíunni að maður eigi að halda sig frá blóði og þegar maður lærir svona mikið um Biblíuna fer maður að skilja að hún er skrifuð fyrir okkar hagsmuni svo það hlýtur að vera ástæða fyrir því. En það eru til alls konar aðrar leiðir og það er að koma mikið í ljós í nýjustu rannsóknum að þessi mikla blóðgjöf sem verið hefur í læknavísindunum, er ekki jafn saklaus og talið hefur verið. Ef þú færð átta mismunandi blóð í þig þá færðu í raun átta mismunandi DNA í líkamann sem getur reynst erfitt fyrir hann að finna úr.

Í Danmörku kom nýlega tilkynning þar sem að fólk, sem hafði fengið blóðgjöf á ákveðnu tímabili, var beðið um að koma til skoðunar því það voru háar líkur á að það hefði smitast af Aids. Fólk hefur alveg jafn mikið dáið við það að fá blóð eins og ekki. Það er ekki jafn mikið talað um það í fjölmiðlum en ef maður kannar þetta vel kemur í ljós að mikið er um aukaverkanir frá blóðgjöf. Það hefur orðið ákveðin vakning í læknavísindum að undanförnum árum varðandi þetta málefni og jafnvel farnir að spretta upp spítalar í pörtum heims þar sem blóðgjöf er ekki notuð, vegna þessarar vakningar. Ég veit samt að í sumum tilfellum er þetta eina leiðin en það er bara undir hverjum og einum komið að dæma fyrir sig sjálfan.



Fréttablaðið bar þessar fullyrðingar undir Tómas Guðbjartsson, yfirlækni á Landspítalanum. Hann segir allt gert til að koma til móts við kröfur Votta Jehóva. „Það er engin spurning að blóðgjafir almennt eru lífsbjargandi á hverjum degi. Við gætum ekki framkvæmt þær opnu hjarta aðgerðir sem við erum að gera án þess að hafa blóð. Ég hef sjálfur gert að áverkum á fólki á Íslandi þar sem hefur þurft næstum 50 lítra af blóði. Það er algjörlega ljóst að þeir sjúklingar hefðu ekki lifað af án blóðgjafar. En við skurðlæknar eru meðvitaðir um óskir Votta Jehóva. Þeir eru flestir tilbúnir að tengjast hjarta og lungnavél, sem er fyllt með vökva sem er í allskonar efni en ekki blóði. Í þeim aðgerðum er reynt allt til að halda blóðtapi í skefjum. Það er gert samkomulag um það að ef það blæðir mikið eftir aðgerðina þá sé ekki gefið blóð og þeir eru þá heldur til í að láta lífið eftir það. Þetta er auðvitað stressandi fyrir teymið og skurðlækninn en þetta er samt gert.

En það er samt rétt sem hún segir að blóð er í raun vefur úr annarri manneskju. Það eru rannsóknir sem sýna að þetta bælir aðeins ónæmiskerfið. Það er ekki æskilegt að gefa neinum blóð nema hann þurfi þess. Ég og mitt rannsóknarteymi höfum stundað miklar rannsóknir á hvernig við getum dregið úr þeim, en þær eru engu að síður algjörlega nauðsynlegur hluti af okkar vopnum til að fleyta sjúklingum í gegnum stórar aðgerðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×