Körfubolti

Sá litli er að gera hluti sem hafa ekki sést áður hjá Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaiah Thomas er ekki hár í loftinu. Hér er hann að reyna að stoppa Dirk Nowitzki.
Isaiah Thomas er ekki hár í loftinu. Hér er hann að reyna að stoppa Dirk Nowitzki. Vísir/Getty
Isaiah Thomas bætti tvö eldgömul met hjá Boston Celtics í nótt en þessi snaggaralegi bakvörður hefur farið á kostum með sigursælasta NBA-liði sögunnar.

Eftir sautján meistaratitla og endalaust af mögnuðum körfuboltamönnum í gegnum tíðina er það morgunljóst að það er ekkert auðvelt að slá félagsmet hjá Boston liðinu.

Frammistaða Isaiah Thomas í vetur er hinsvegar orðinn söguleg hjá þessu sögulega félagi.

Isaiah Thomas skoraði 29 stig í nótt og var þetta 41. tuttugu stiga leikur hans í röð. Hann sló þar með met John Havlicek frá 1971-72 tímabilinu. Havlicek átti því metið í 45 ár.

Isaiah Thomas tók líka annað met af John Havlicek í gær. Thomas er með 29,9 stig að meðaltali nú þegar deildin er komin í stutt frí vegna Stjörnuleikshátíðarinnar.

Havlicek skoraði 29,2 stig að meðaltali í leikjum sínum með Boston Celtic fyrir Stjörnuleikinn 1971.

Larry Bird komst næst því að bæta það tímabilið 1987-88 þegar hann skoraði 28,6 stig að meðaltali í leikjum Boston Celtics fyrir Stjörnuleikinn.



Isaiah Thomas er 28 ára gamall en hann var valinn sextugasti af Sacramento Kings í nýliðavalinu 2011. Það þýðir liðin sem völdu á undan Sacramento álitu að 59 leikmenn væru betri en hann í þessu nýliðavali. Annað hefur heldur betur komið á daginn.  Það var hæðin, 175 sentímetrar, sem var örugglega að trufla marga.

Thomas kom til Boston í febrúar 2015 eftir skipti við Phoenix Suns.  Það var ljóst frá byrjun að þarna var hann kominn í lið sem hentaði honum vel.

Isaiah Thomas hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili ekki síst í fjórða leikhlutanum þar sem hann skorað fleiri stig en nokkur annar leikmaður NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×