Golf

Ryderinn dregur það besta fram í Lee Westwood

Mikið mun mæða á Westwood í Rydernum um næstu helgi.
Mikið mun mæða á Westwood í Rydernum um næstu helgi. AP/Getty
Lee Westwood er einn reynslumesti kylfingur Evrópuliðsins í Ryder-bikarnum en hann hefur tekið þátt í þessari sögulegu keppni átta sinnum á ferlinum. Eftirminnilegasta frammistaða Westwood í Rydernum var eflaust á Belfry vellinum árið 2002 þegar að hann var valinn í liðið af fyrirliðanum Sam Torrance.

Ferill Westwood var þá á hraðri niðurleið en hann var í 266. sæti á heimslistanum í golfi og þótti fyrirliðaval Torrance afar djarft á þeim tíma. Westwood réttlætti þó val fyrirliðans með frábærri frammistöðu en hann og Sergio Garcia mynduðu gott teymi og sigruðu í þremur af fjórum leikjum sínum.

Evrópa sigraði bikarinn það árið á eftirminnilegan hátt en eftir mótið tók ferill Westwood á flug á ný. Síðan þá hefur hann verið í hópi bestu kylfinga heims en hann telur að Ryder-bikarinn sem hefst í næstu viku geti hjálpað honum að spila sitt besta golf aftur.

Ryder-bikarinn hefur verið mjög góður við mig í gegn um tíðina. Ég hef margar frábærar minningar en mótið á Belfry var sérstakt. Ég hafði verið í tómu tjóni með golfið mitt lengi en þegar að ég spilaði í Ryder-bikarnum árið 2002 þá fann ég einhvern neista aftur. Ég fékk trú á því aftur að ég gæti spilað við bestu kylfinga heims og eftir mótið byrjaði allt að ganga betur. Ég stend í raun í þakkarskuld við þessa keppni.

Westwood tókst ekki að spila sig inn í Evrópuliðið að þessu sinni en Paul McGinley valdi hann í liðið í fyrirliðavalinu. Hann hefur ekki átt eftirminnilegt tímabil í ár en hefur trú á því að ef hann spilar vel á Gleneagles í næstu viku þá eigi það eftir að gefa honum sjálfstraust fyrir næsta tímabil.

Kannski verður Ryderinn í ár jafn mikilvægur fyrir mig og þegar að við sigruðum á Belfry árið 2002. Ég hef ekki verið nógu stöðugur undanfarið en ef mér gengur vel á Gleneagles þá er aldrei að vita nema að það gefi mér aukið sjálfstraust fyrir komandi átök eins og gerðist árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×