Skoðun

RÚV textar innlent efni

Margrét Magnúsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir skrifaði bakþanka sem birtust í Fréttablaðinu 20. mars sl. undir yfirskriftinni: Af hverju textum við ekki? Í greininni fjallar Helga um mikilvægt málefni og ber að þakka henni fyrir sitt framlag til umræðunnar. Í greininni fullyrðir Helga Vala að innlent sjónvarpsefni sé ekki textað og þar með ekki aðgengilegt öllum landsmönnum. Helgu hefur augljóslega yfirsést að þetta á ekki við um dagskrá allra miðla á Íslandi. Ríkisútvarpið, RÚV, hefur lagt ríka áherslu á að sinna textun af metnaði. Því er það okkur ljúft og skylt að upplýsa Helgu og aðra nánar um textun RÚV á innlendu dagskrárefni.

Hjá RÚV er öll forunnin innlend dagskrá textuð eftir því sem unnt er og sama gildir um undirbúin innlend innslög í aðalfréttatíma sjónvarps. Innlendir þættir sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu eru textaðir fyrir endursýningu.

Árið 2013 hóf RÚV einnig textun frétta í beinni útsendingu og hefur það verið gert óslitið síðan. Þegar stóratburðir verða sem snerta alla landsmenn er kallaður til rittúlkur sem túlkar jafnóðum í beinni útsendingu. Þetta á við um sviptingar í stjórnmálunum, náttúruhamfarir heima fyrir og hryðjuverk úti í heimi.

Það skal tekið fram að fréttir eru ekki alltaf tilbúnar löngu fyrir útsendingu heldur er þær oft í vinnslu fram á síðustu stundu. Því geta átt sér stað undantekningar frá meginreglunni sem leiðir til þess að einstaka fréttir eru ekki textaðar í heild, heldur eru meginatriði þeirra einungis dregin saman.

Ríkisútvarpið kappkostar að mæta ólíkum þörfum eins og kostur er og hefur aukið textunarþjónustu á undanförnum misserum. Við vonumst til að halda áfram að bæta þjónustu okkar og tökum því ábendingum um umbætur fagnandi í gegnum vefgátt á vef okkar RÚV.is.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×