Skoðun

RÚV og menningin

Haukur Logi Karlsson skrifar
Í veröldinni sem var hafði Ríkisútvarpið mikilvægu hlutverki að gegna bæði í miðlun og framleiðslu útvarps- og sjónvarpsefnis. Árið 1986, fyrir 28 árum, hafði tækninni fleygt nægilega fram til þess að aðkoma ríkisins var ekki lengur forsenda fyrir íslenskum ljósvakamiðlum. Síðan er liðinn hálfur mannsaldur þar sem framfarir í tækni hafa séð til þess að hægt en örugglega hefur fjarað undan rökum fyrir ljósvakamiðlun á vegum ríkisins. Í gegnum ljósleiðara og önnur nýtísku fjarskiptakerfi reiðir Ríkisútvarpið sig núorðið á innviði í eigu annarra til þess að miðla efni sem að nokkrum hluta er framleitt af einkaaðilum. Það er því von að spurt sé hvort rekstur ríkismiðils sé tímaskekkja ef hann hefur það eina hlutverk að vera einn af mörgum milliliðum á milli fjarskiptakerfa og efnisframleiðanda.

Þrátt fyrir að rökin skorti fyrir ríkismiðlun kunna enn að vera menningarleg rök fyrir aðkomu ríkisins að framleiðslu efnis. Í því samhengi er Ríkisútvarp augljóslega ekki forsenda. Ef skipuleggja ætti slíka aðkomu í dag væri það ekki gert með því að stofna Ríkisútvarp. Eðlilegast væri að þeim fjármunum sem ríkið kýs að verja í framleiðslu sjónvarps og útvarpsefnis væri úthlutað í gegnum samkeppnissjóð þar sem öllum landsmönnum gæfist kostur á að koma sínum hugmyndum að á jafnræðisgrunni. Birting gæti svo farið fram hvar sem er og jafnvel með áskilnaði um opinn aðgang. Eins og staðan er í dag er starfsmönnum Ríkisútvarpsins treyst fyrir mörg þúsund milljónum árlega til þess að framleiða og kaupa efni án þess að raunverulegt gagnsæi sé í hvernig þeim fjármunum er varið.

Tímaskekkja

Menningarrökin ná ekki til stórs hluta þess sem Ríkisútvarpið sinnir í dag. Kaup ríkisins á annars og þriðja flokks afþreyingarefni erlendis frá er tímaskekkja. Einkaaðilar og jafnvel bloggsíður sinna íþróttaefni betur en Ríkisútvarpið. Fréttastofan er stundum ágæt og stundum ekki. Gæðalega stendur hún öðrum miðlum ekki framar og hún er að auki alveg jafn berskjölduð fyrir pólitískum hráskinnaleik og aðrar fréttastofur. Sérstök rök fyrir aðkomu ríkisins að fréttaflutningi skortir í umhverfi þar sem fjöldi einkaaðila gerir nákvæmlega það sama með svipuðum árangri.

Þegar nostalgíunni eftir því sem var á gullöld almannasjónvarpsins sleppir er fátt sem mælir á móti því að Ríkisútvarpið verði skrúfað í sundur og þeir hlutar seldir sem einhver vill kaupa. Fjármuni sem mundu losna árlega á fjárlögum við þá ráðstöfun mætti nota til að fjármagna samkeppnissjóð til styrktar framleiðslu á íslensku efni sem miðlað væri í gegnum einhvern af þeim fjölmörgu miðlum sem nútímatækni býður upp á.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×