Innlent

Rútuslysið á Þingvallavegi: Blóðbankinn nær að anna eftirspurn spítalans

Atli Ísleifsson skrifar
Blóðbankinn er opinn til klukkan 15 í dag.
Blóðbankinn er opinn til klukkan 15 í dag. Vísir/Hari
„Við höfum náð að anna því sem spítalinn er búinn að panta af blóði, segir Vigdís Jóhannsdóttir, forstöðumaður blóðsöfnunar hjá Landspítalanum, um ástandið í Blóðbankanum í kjölfar rútuslyssins á Þingvallavegi fyrr í dag.

Landspítali hefur nú verið tekinn af gulu viðbúnaðarstigi sem hann var settur á vegna slyssins. Jafnframt er ekki lengur í gildi sérstök beiðni til fólks um að koma ekki á bráðamóttökuna í Fossvogi nema í neyðartilfellum.

Vigdís segir þó að Blóðbankinn vilji endilega fá blóðgjafana jafnt og þétt inn. „Við erum sérstaklega að biðja vana blóðgjafa í O mínus og O plús að koma inn. Það er það sem er hægt að nota mest.“

Hún segir að Blóðbankinn hafi ákveðið að lýsa ekki yfir sérstöku neyðarástandi í kjölfar slyssins. „Það reynist okkur oft best að hringja sjálf í blóðgjafana okkar þegar svona er. Staðan er hins vegar þannig núna að við náum alveg að anna því sem spítalinn þarf.“

Blóðbankinn er opinn til klukkan 15 í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×