Innlent

Rútuslys á Möðrudalsöræfum: Farþegarnir komnir eða á leiðinni til byggða

Kjartan Kjartansson skrifar
Rútan var nokkuð löskuð eftir áreksturinn við snjóruðningstækið. Nokkrir farþegar slösuðust lítillega.
Rútan var nokkuð löskuð eftir áreksturinn við snjóruðningstækið. Nokkrir farþegar slösuðust lítillega. Guðjón Vésteinsson
Farþegar rútunnar sem var ekið aftan á snjóruðningstæki í Víðidal á Fjöllum í dag eru nú komnir eða á leiðinni til Egilsstaða. Tuttugu og fimm farþegar voru í rútunni en tveir til þrír þeirra eru sagðir lítillega slasaðir. Björgunarsveitarmenn eru enn að aðstoða ferðalanga á Möðrudalsöræfum sem lentu í hremmingum í ófærð og slæmu skyggni.

Björgunarsveitir af Austurlandi og Norðausturlandi voru kallaðar út til aðstoðar vegna slyssins í dag og var almannavarnaástand virkjað. Blindabylur var á svæðinu og lokaði Vegagerðin veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfum vegna ófærðar.

Sveinn H. Oddsson hjá svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi segir að tveir eða þrír af farþegum rútunnar hafi hlutið minniháttar meiðsl í slysinu. Um borð í rútunni voru tuttugu og fimm taívanskir ferðamenn.

Hluti hópsins er nú kominn til Egilsstaða þar sem fjöldahjálparmiðstöð hefur verið opnuð en hluti er enn á leiðinni þangað með björgunarsveitarfólki, að sögn Sveins. Hann hefur ekki upplýsingar um hvernig slysið bar að en hvasst hafi verið og kófaði yfir veginn.

Sveinn segir að farþegunum hafi verið brugðið en að þeir hafi verið í skjóli í rútunni og hiti hafi enn verið á henni þegar björgunarsveitarmenn komu á staðinn.

Björgunarsveitarmenn séu enn að greiða úr flækju ferðafólks sem var á ferðinni á svipuðum slóðum og lenti í veðrinu.

Á bilinu tuttugu til þrjátíu björgunarsveitarmenn af Austurlandi og Norðausturlandi hafa tekið þátt í aðgerðum á Möðrudalsöræfum í dag.Sigmar Daði Viðarsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×