Erlent

Rússar stinga upp á vopnahléi þann 1. mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarhermenn skjóta úr fallbyssu.
Stjórnarhermenn skjóta úr fallbyssu. Vísir/AFP
Stjórnvöld Rússlands hafa stungið upp á að vopnahléi verði komið á í Sýrlandi þann 1. mars næstkomandi. Bandarískir embættismenn vilja hins vegar að vopnahlé verði komið á strax. Þeir segja Rússa og stjórnarherinn vilja þrjár vikur til að herja frekar gegn uppreisnarhópum og ná borginni Aleppo á sitt vald.

Til stendur að hefja friðarviðræður að nýju þann 25. febrúar. Forsvarsmenn nokkurra ríkja, þar á meðal Rússlands og Bandaríkjanna, ætla að hittast í Munich í Þýskalandi. Þar munu þeir leita leiða til að stöðva borgarastyrjöldina í Sýrlandi sem hefur staðið yfir í tæp fimm ár.

Minnst 250 þúsund manns hafa fallið í átökunum.

Samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem rekin er af rússneska ríkinu, segir að til greina komi að samþykkja vopnahlé í Sýrlandi. En ekki er sagt hvenær það væri hægt. Hins vegar velti það á viðhorfi stjórnvalda í Sádi-Arabíu, sem hafa stutt uppreisnarhópa í Sýrlandi bæði fjárhagslega og með vopnum.

Gennady Gatilov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að Sádi-Arabíu og bandamönnum þeirra sé um að kenna að síðustu friðarviðræður hafi farið út um þúfur. Fulltrúar uppreisnarmanna slitu sig frá viðræðunum þegar stjórnarherinn, studdur af loftárásum Rússa, hermönnum frá Íran og Hezbollah, hófu árásir í kringum Aleppo. Þær árásir hófust nánast á sama tíma og friðarviðræðurnar.


Tengdar fréttir

Viðræður í uppnámi vegna loftárása

Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.

Segja Tyrki vera komna að þolmörkum

Talið er að rúmlega 3 milljónir flóttamanna séu nú í Tyrklandi en þrátt fyrir það ætla stjórnvöld sér að reyna að taka við fleirum.

50 þúsund á flótta frá Aleppo

Átökin undanfarnar vikur í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, hafa hrakið fimmtíu þúsund manns á vergang. Þetta segir í yfirlýsingu frá Rauða krossinum en ástandið í borginni fer vernsandi dag frá degi. Búið er að rjúfa allar vatnsleiðslur sem liggja inn í borgina auk þess nær ómögulegt er að koma þangað hjálpargögnum.

Stefnir í umsátur um Aleppo

Sýrlenski stjórnarherinn sækir hratt að Aleppo og líklegt þykir að hundruðir þúsundir Sýrlendinga muni lokast inn í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×