Erlent

Rússar reyna að spilla forsetakosningum í Úkraínu

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra Úkraínu segir Rússa ætla sér að spilla forsetakosningum í landinu í næsta mánuði og rússneskar sérsveitir starfi í austurhluta landsins. Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna segir umheiminn aldrei viðurkenna ólögmæta innlimun Krímskaga í Rússland.

Aðgerðarsinnar hliðhollir Rússum hafa ekki yfirgefið opinberar byggingar í austurhluta Úkraínu þrátt fyrir samkomulag Rússa, stjórnvalda í Úkraínu, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins í Genf fyrir helgi.

Þrír aðgerðarsinnar í borginni Slaviansk sem féllu í skotbardaga við eftirlitsstöð þeirra á sunnudag voru bornir til grafar í dag. En aðgerðarsinnar segja þjóðernissinnaða Úkraínumenn hafa ráðist á eftirlitsstöðina og fellt félaga þeirra og tveir þjóðernissinnar hafi einnig fallið.

Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna kom til Kænugarðs seinnipartinn í gær til að sýna stjórnvöldum þar stuðning. Hann segir að Bandaríkin og umheimurinn muni aldrei viðurkenna ólöglega innlimun Krímskaga í Rússland.

„En nú er kominn tími til að Rússar hætti yfirlýsingum og láti verkin tala með því að fara eftir þeim skuldbindingum sem þeir hafa gengist undir. Um að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum yfirgefi opinberar byggingar og eftirlitsstöðvar, taki við sakaruppgjöf og láti óánægju sína fram með pólitískum hætti. Það ætti ekki að vera svo erfitt að að fara eftir samkomulaginu og láta af ólöglegri yfirtöku opinberra byginga,“ sagði Joe Biden á sameiginlegum blaðamannafundi með Aresny Yatseniuk forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar í Kænugarði í dag.

Yatseniuk sagði Úkraínumenn vilja víðtækt samstarf við bandarísk og evrópsk orkufyrirtæki. Landið þyrfti á fjárfestingum á þessu sviði að halda til að losna undan áhrifamætti sem Rússar hefðu í orkumálum í Úkraínu. Hann sagði rússneska sérsveitarmenn að störfum í austur Úkraínu til að spilla fyrir forsetakosningum í landinu hinn 25. maí.

Við höfum engar kröfur á Rússa. Það eina sem við ætlumst til er að þeir uppfylli alþjóðlega samninga og hætti að haga sér eins og gangsterar,“ sagði Aresny Yatseniuk á blaðamannafundinum með Baiden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×