Erlent

Rússar og Kínverjar koma í veg fyrir viðskiptaþvinganir gegn Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Úr sal öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Úr sal öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Vísir/Epa
Rússar og Kínverjar beittu í dag neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktun um að koma á viðskiptaþvingunum gegn ákveðnum einstaklingum og fyrirtækjum í Sýrlandi sem grunuð eru um að hafa átt þátt í að beita efnavopnum gegn borgurum í landinu á árunum 2014 og 2015.

Bandaríkin, Bretland og Frakkar vildu koma á slíkum viðskiptaþvingunum sem hefðu beinst gegn rúmlega tuttugu mönnum, fyrirtækjum og stofnunum sem eru grunuð um að hafa tekið þátt í efnavopnaárásunum.

Ályktunin hefði jafnframt bannað öllum ríkjum að útvega Sýrlandsstjórn þyrlur, þar sem rannsakendur segja slík farartæki hafa verið notuð í umræddum árásum.

Þetta er í sjöunda sinn sem Rússlandsstjórn, sem styður við stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, beitir neitunarvaldi í málinu.

Níu af fimmtán aðildarríkjum öryggisráðsins greiddu atkvæði með tillögunni. Auk Rússa og Kínverja greiddu Bólivíumenn atkvæði gegn ályktunni, en Eþíópíumenn, Egyptar og Kasakar sátu hjá.

Til að ályktun verði samþykkt þurfa níu af fimmtán ríkjum öryggisráðsins að greiða atkvæði með, auk þess að ekkert fastaríkjanna fimm (Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland og Frakkland) mega beita neitunarvaldi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×