Erlent

Rússar með heræfingar á umdeildum landsvæðum

Atli Ísleifsson skrifar
Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Anatoly Antonov segir að virkni herja vesturveldanna nærri rússnesku landamærunum séu víða meiri en starfsemi Rússlandshers.
Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Anatoly Antonov segir að virkni herja vesturveldanna nærri rússnesku landamærunum séu víða meiri en starfsemi Rússlandshers. Vísir/AFP
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur tilkynnt að heræfingar landsins í suðurhluta landsins séu hafnar.

Rúmlega tvö þúsund menn flughersins taka þátt í æfingunni sem fer fram á umdeildum landsvæðum, þar á meðal Krímskaga, rússneskum herstöðvum í Armeníu og georgísku héruðunum Abkasíu og Suður-Ossetíu. Interfax greinir frá þessu.

Talið er að Rússlandsher vilji með æfingunum sýna fram á styrk sinn, en mikil spenna ríkir nú í samskiptum Rússlands og Vesturveldanna.

Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Anatoly Antonov segir að virkni herja vesturveldanna nærri rússnesku landamærunum séu víða meiri en starfsemi Rússlandshers. Segir hann aðildarríki NATO nýta sér ástandið í austurhluta Úkraínu sem afsökun til að flytja hersveitir sínar nær Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×